fimmtudagur, 24. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norrænir menn á Grænlandi borðuðu sel

21. nóvember 2012 kl. 13:22

Selir á ís

Rannsóknir útiloka að þeir hafi dáið út vegna þess að þeir gátu ekki aðlagast fæðuframboði á Grænlandi.

 

Fyrir 500 árum hurfu norrænir menn, afkomendur víkinganna, skyndilega og sporlaust frá Grænlandi. Enn þann dag í dag hefur enginn getað útskýrt brotthvarf þeirra með nokkurri vissu. Kenningar hafa verið um að eitthvert stóráfall hafi dunið yfir eða að loftslagsbreytingar hafi gert það að verkum að norrænir menn hafi ekki getað dregið fram lífið. 

Nú hefur teymi vísindamanna frá Danmörku og Kanada komist að  þeirri niðurstöðu að útilokað sé að norræna samfélagið hafi dáið út vegna þess að fólkið gat ekki tileinkað sér þá fæðu sem í boði var í landinu. Rannsóknir á jarðneskum leifum 80 norrænna manna á Grænlandi leiða í ljós að fólkið var iðið við selveiðar og neytti afurða af selum í ríkum mæli.

Fyrstu norrænu landnemarnir á Grænlandi tóku með sér kvikfénað frá Íslandi, kindur, geitur og svín. Þeir litu á sig sem bændur en veiðar á sjó og landi voru þeim ekki framandi. Fljótlega fóru þeir að veiða seli sem viðbót við þann mat sem landbúnaðurinn færði þeim. Að lokum höfðu þeir aðlagast selveiðum í næstum sama mæli og það fólk sem kom til Grænlands frá Kanada í kringum 1200 og byggði landið samhliða norrænu mönnunum. 

Greint er frá þessu á vef grænlenska útvarpsins. Haft er eftir Niels Lynnerup prófessor við Kaupmannahafnarháskóla að ekkert bendi þess að norrænir menn á Grænlandi hafi horfið af völdum einhverra stóráfalla. Rannsóknir á beinagrindunum sýni að fólkið hafi smám saman yfirgefið Grænland. Til dæmis sé lítið af jarðneskum leyfum yngri kvenna í grafreitunum frá síðasta skeiði búsetu norrænna manna sem bendi til þess að yngra fólk hafi flust burt. Þar með hafi fólkið hætt að fjölga sér.