sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norsk-íslensk síld mæld við strönd Noregs

8. maí 2008 kl. 12:03

Aldrei áður fundist eins mikið af síldarlirfum

Mæling norskra fiskifræðinga á nýjasta árgangi norsk-íslensku síldarinnar lofar góðu því aldrei hefur fundist eins mikið af síldarlirfum við norsku ströndina og nú, samtals 108 milljarðar lirfa, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.

Á einum mælingarstaðnum mældust tæplega 50.000 lirfur í hverjum rúmmetra vatns sem rann í gegnum trollið. Það svarar til einnar lirfu á hvern lítra.

Til samanburðar má geta þess að árið 1972 fundust aðeins tvær síldarlirfur meðfram allri norsku ströndinni en þá var síldarstofninn hruninn sem kunnugt er.

Gamla metið var frá 2006 þegar 99 milljarðar lirfa mældust. Reyndar hefur hrygningin síldarinnar tekist mjög vel síðustu fimm árin, 2004-2008.

Haft er eftir Erling Kåre Stenevik, leiðangursstjóra, á vef Fiskeribladet/Fiskaren að alltof snemmt sé að slá neinu föstu um það hvernig 2008 árgangi síldarinnar reiði af. Gríðarleg afföll eru framundan og það kemur ekki í ljós fyrr en síldarungviðið er komið á uppeldisstöðvarnar í Barentshafi hversu stór þessi árgangur verður.