sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norsk-íslenska síldin mætt fyrir austan

15. maí 2008 kl. 11:51

Norsk-íslenska síldin er komin í íslenska lögsögu og það í töluverðu magni.

Þetta hefur komið fram í leiðangri r/s Árna Friðrikssonar sem verið hefur við síldar- og kolmunnamælingar í hafinu austur af landinu ásamt rannsóknaskipum frá Noregi, Færeyjum og Evrópusambandinu.

,,Það er töluvert er af síld fyrir austan land, að minnsta kosti eins mikið og á síðasta ári. Síldin fer suður fyrir köldu tunguna austur af Íslandi og kemur vestur fyrir hana að einhverju leyti en er líka djúpt úti. Við erum búnir að fara yfir svæðið úti af sunnanverðum Austfjörðum og allt norður að Langanesi. Síldin er á djúpinu en einnig hafa sést yfirborðstorfur nær landi. Hún er greinilega búin að stimpla sig inn hér í lögsögunni,” sagði Þorsteinn Sigurðsson sviðsstjóri nytjastofnasviðs Hafrannsóknastofnunar í samtali við Fiskifréttir í dag.

Rannsóknum er ekki lokið og því liggja tölur um mælinguna ekki fyrir ennþá.