laugardagur, 16. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norsk loðnuskip hafa veitt 10.000 tonn hér

19. janúar 2011 kl. 15:19

Loðna

Alls hafa 30 norsk skip leyfi til loðnuveiða við Ísland

Norsk skip hafa veitt rösklega 10.000 tonn af loðnu við Ísland á þessari vertíð, samkvæmt upplýsingum Landhelgisgæslunnar. Það er tæplega þriðjungur af leyfilegum kvóta þeirra hér við land sem er 27.000 tonn.

Alls 30 skip hafa leyfi til loðnuveiða við Ísland að þessu sinni. Þau voru dregin út úr hópi 75 skipa sem sóttu um veiðileyfi hjá norsku fiskistofunni. Hvert skip má veiða að hámarki 900 tonn.

Eitt norsku skipanna tilkynnti Gæslunni í dag að það væri á leið inn til Eskifjarðar með rifna nót og myndi landa afla sínum, 480 tonnum, þar. Hin skipin hafa farið með afla sinn heim til Noregs til löndunar. Norsku skipin mega aðeins veiða loðnuna í nót hér við land en flest eða öll íslensku skipanna hafa veitt með flottrolli það sem af er vertíðinni.