sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norsk stjórnvöld vilja ekki endursemja um Smuguna

2. ágúst 2010 kl. 12:00

Smugusamningurinn framlengist um 4 ár

Norsk stjórnvöld vilja ekki taka upp Smugusamninginn og tvíhliða samkomulag milli Noregs og Íslands um gagnkvæmar veiðar. Í samningnum, sem er frá árinu 1999, er ákvæði um endurskoðun í ár ef aðilar óska þess annars framlengist hann um 4 ár. 

Þetta kemur fram á vef samtaka norskra útvegsmanna. Þar segir ennfremur að samtökin hafi farið fram á það við norsk stjórnvöld að samningurinn yrði endurskoðaður. Samtökin halda því fram að gagnkvæmar veiðar í lögsögu landanna séu klárlega Íslendingum í hag. Einnig kvarta þau yfir því að Íslendingar beiti tæknilegum hindrunum.

Í svari norska sjávarútvegsráðuneytisins til samtaka útvegsmanna segir að ráðuneytið telji að Ísland hafi sett reglur sem á vissan hátt hafi verið hindrun fyrir norsk skip að veiða kvóta sinn í íslenskri lögsögu. Norsk stjórnvöld meti það hins vegar sem svo að Ísland hafi sýnt “skilning” á þessu vandamáli.

Tekið er fram að Smugusamningurinn sé afar mikilvægur fyrir stjórn fiskveiða í Barentshafi. ,,Sömuleiðis teljum við það mikilvægt að tryggja að samningnum sé fylgt eftir í samræmi við upphaflegan tilgang, sérstaklega með tilliti til jafnvægis í gagnkvæmum veiðiheimildum og til þess að koma í veg fyrir tæknilegar hindranir,“ segir ennfremur í svari norska sjávarútvegsráðneytisins.