þriðjudagur, 2. júní 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norska vinnslan í vanda

Guðsteinn Bjarnason
7. mars 2020 kl. 09:00

Fiskvinnsla í Noregi. Aðsend mynd

Lerøy tapar á fiskvinnslunni en hagnast vel á útgerð

Norska sjávarútvegsfyrirtækið Lerøy hefur undanfarin misseri verið í verulegum vanda með fiskvinnslu sína, enda þótt útgerðarhluti fyrirtækisins skili góðum hagnaði. 

Webjørn Barstad, framkvæmdastjóri, segir vanda fiskvinnslunnar stafa af því að vinnslan hafi þurft að greiða meira fyrir hráefnið.

„Það hefur verið mjög erfitt að ná þessari hækkun aftur inn á markaðnum á jafn stuttum tíma,“ segir Barstad í viðtali við norska ríkisútvarpið, NRK.

Engu að síður verði vinnslan að ná sér upp úr tapinu og snúa rekstrinum við.

„Það gengur ekki að vera með grein sem ekki aflar penings,“ segir hann.

„Vinnslan á bolfiski hefur lengi verið erfið í Noregi,“ segir í skýrslu fyrirtækisins fyrir fjórða ársfjórðung. „Vegna mikillar eftirspurnar eftir sjávarafurðum og minni veiðiheimildum hækkaði hráefnisverðið á árinu 2018 og fram á árið 2019, sem til skamms tíma litið er alltaf krefjandi verkefni í vinnslunni.“

NRK ræðir einnig við Edgar Henriksen, vísindamann hjá NOFIMA, sem hefur litla trú á framtíð fiskvinnslustöðvanna tólf sem Lerøy rekur í norðanverðum Noregi.

„Saga flökunariðnaðarins er ekki skemmtileg lesning,“ segir Henriksen. Lerøy standi þó betur að vígi en aðrar vinnslustöðvar vegna þess að fyrirtækið er einnig með öfluga útgerð.

Lerøy gerði út níu togara á fjórða ársfjórðungi 2019 og var að taka tíunda togarann í rekstur nú í byrjun 2020. Þessir togarar mega veiða hátt í þriðjung alls þess þorsks sem norskum togurum stendur til boða að veiða.

gudsteinn@fiskifrettir.is