mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

"Harmar" ákvörðun Íslendinga

12. febrúar 2013 kl. 11:39

Lisbeth Berg-Hansen

Norski sjávarútvegsráðherrann segir makrílkvóta Íslands miklu hærri en Íslendingar krefjist við samningaborðið.

 

Norski sjávarútvegsráðherrann, Lisbet Berg-Hansen, sendi frá sér fréttatilkynningu í dag þar sem hún segist harma ákvörðun Íslendinga um að setja sér himinháan makrílkvóta fyrir árið 2013. 

„Þegar að minnsta kosti tíu ríki fiska úr sama makrílstofninum getur Ísland ekki tekið til sín 23% af heildaraflanum. Það eru ekki sjálfbærar veiðar og ógnar makrílstofninum,“ segir ráðherrann.  

Berg-Hansen fullyrðir að kvóti Íslendinga upp á 123.182 tonn sé langtum hærri en tenging makrílsins við íslenska lögsögu gefi tilefni til. ,,Kvóti Íslands er í raun einnig miklu hærri en það sem Ísland hefur krafist við samningaborðið,“ segir ráðherrann. 

Lisbet Berg-Hansen vísar til þess að vísindamenn hafi lagt til að dregið yrði úr makrílveiðum. Noregur og Evrópusambandið hafi brugðist við því með því að minnka aflaheimildir sínar um 89.000 tonn en Ísland hafi aðeins skert sinn kvóta um 25.000 tonn. 

Norski ráðherrann hvetur Íslendinga til þess að koma að samningaborðinu með afstöðu sem taki raunverulegt mið af göngumynstri makrílsins með tilliti til íslenskrar lögsögu.