mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norskir fiskimenn tóku á sig 27% verðlækkun í þorski

15. janúar 2014 kl. 14:30

Fiski landað í Tromsö í Noregi.

Aukinn kvóti og erfiðleikar í markaðslöndum leiddu til þess að fiskverð til sjómanna og útvegsmanna lækkaði

Norskir fiskimenn báru hitann og þungann af kvótaaukningu á þorski á síðasta ári og markaðserfiðleikum, að því er segir í samantekt fisksölusamlags sjómanna og útvegsmanna í Noregi (Norges Råfisklag). Þar kemur fram að fiskimenn hafi tekið á sig 27% verðlækkun á þorski.

Í samantektinni segir að efnahgsvandræði í nokkrum helstu viðskiptalöndum hafi leitt til þess að verð á þorskafurðum lækkaði. Strax í desember 2012 hafi fiskverð til sjómanna og útvegsmanna verið lækkað umtalsvert. Lágmarksverð á þorski í algengasta stærðarflokknum lækkaði úr 14,5 krónum á kíló (274 ISK) niður í 10,5 krónur (198 ISK). Hér er væntanlega um hausaðan þorsk að ræða.

Fiskimenn hafa gagnrýnt að þeir skuli hafa tekið á sig svo stóran hluta af verðlækkun sem varð á mörkuðum. Eftir á að hyggja viðurkenna þeir að nauðsynlegt hafi verið að lækka verð til að tryggja sölu á 30% aukningu þorsks á tímum óvissu á mörkuðum. Nú sé botninum náð og hið jákvæða sé að birgðir séu engar og fjöldi nýrra kaupenda hafi kynnst norska þorskinum. Lágmarksverð á þorski hafi einnig hækkað og sé 11,25 krónur á kíló (212 ISK) á vertíðinni 2014.