föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norskir útvegsmenn vilja kanna loðnugengd milli Jan Mayen og Grænlands

19. september 2009 kl. 14:30

Samtök norskra útvegsmanna (Fiskebåtredernes Forbund) segjast hafa heimildir fyrir því að vart hafi orðið við umtalsvert magn af loðnu í leiðangri norsku hafrannsóknastofnunarinnar á svæðinu milli Jan Mayen og Grænlands nýlega.

Samtökin hafa af þessu tilefni farið þess formlega á leit við norska sjávarútvegsráðuneytið og norsku hafrannsóknastofnunina að gert verði út rannsóknaskip til þess að kortleggja magn og útbreiðslu loðnunnar á þessu svæði.

Bent er á að loðnusamningur Íslands, Noregs og Grænlands sé næst uppsegjanlegur fyrir 30. nóvember næstkomandi. Norsku útvegsmannasamtökin segjast ekki hafa tekið afstöðu til þess hvort norsk stjórnvöld eigi að nýta sér þann rétt að segja samningnum upp en kanna þurfi útbreiðslu loðnunnar á áðurnefndu svæði. 

Samtökin segja að Íslendingar einbeiti sér fyrst og fremst að því að mæla loðnustofninn í íslenskri lögsögu en síður í lögsögum hinna ríkjanna. Lítið hafi mælst af loðnu við Ísland undanfarin ár. Norsk skip hafi enga loðnu veitt þar á síðustu vertíð og útlit sé fyrir að hið sama verði uppi á teningnum næsta vetur.

Samtök norska útgerðarmanna fara þess ennfremur á leit að norska sjávarútvegsráðuneytið beiti sér fyrir því að Íslendingar bæti Norðmönnum upp loðnuleysið við Ísland. Samkvæmt Smugusamningum eigi Norðmenn að fá tilteknar loðnu- og botnfiskveiðiheimildir við Ísland gegn þorskveiðiheimildum Íslendinga í Barentshafi. Samtökin leggja til að Íslendingar auki botnfiskkvóta Norðmanna (á löngu og keilu) við Ísland og framselji þeim rækjuveiðiheimildir sínar á svæði 3L á Flæmingjagrunni sem eru 334 tonn.