sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norskur fiskiðnaður: Þriðji hver starfsmaður frá Austur-Evrópu?

23. september 2009 kl. 15:00

Samtök launþega í matvælaiðnaði í Noregi krefjast þess að nýsköpunarsjóðir styðji ekki við bakið á norskum fiskvinnslum sem byggja starfsemi sína á starfsmannaleigum. Þau fullyrða að þriðji hver starfsmaður við fiskverkun búi ekki við samningsbundin launakjör.

Haft er eftir talsmanni samtakanna að um 3-4 þúsund starfsmenn í norskum fiskiðnaði komi frá erlendum starfsmannaleigum. Hann segir að mikil aukning hafi verið á þessu undanfarin ár. Samtökunum berist í síauknum mæli upplýsingar um að starfsmannaleigur í Austur-Evrópu bjóði þessu fólki kjör sem flokkist undir félaglegt undirboð. Þetta eigi ekki aðeins við í fiskiðnaði heldur í norskum matvælaiðnaði yfirleitt. Hann bendir einnig á að erlent fólk sem komi á vegum starfsmannaleiga greiði ekki skatt af launum sínum í Noregi.

Samtökin vilja herða róðurinn gegn þessari þróun og hafa átt viðræður við stjórnmálamenn og embættismenn í því skyni. Meðal annars leggja þau til að eftirlitsmönnum verði fjölgað og að þeir fái vald til að stöðva styrkveitingar til þeirra fyrirtækja sem nota starfsmannaleigur sem undirbjóða norsk launakjör. Þá leggja samtökin til að nýsköpunarsjóðir veiti ekki lán og styrki til slíkra fyrirtækja.

Heimild: IntraFish