fimmtudagur, 24. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norskur saltfiskur tapar markaðshlutdeild í Brasilíu

16. nóvember 2012 kl. 15:33

Saltfiskur þurrkaður

Brasilískum neytendum þykir þægilegra að kaupa útvatnaðan fisk frá Portúgal en hefðbundinn þurrrkaðan saltfisk frá Noregi

Norskur saltfiskur hefur mætt vaxandi samkeppni í Brasilíu frá nýjum saltfiskafurðum frá Portúgal og Kína. Hér er aðallega um að ræða útvatnaðan saltfisk í bitum og saltaða ufsabita, að því er fram kemur á vef norsku rannsóknastofnunarinnar Nofima.

Vaxandi áhugi Brasilíumann á nýjum saltfiskafurðum frá öðrum löndum en Noregi hefur leitt til þess að markaðshlutdeild norsks saltfisks í Brasilíu hefur minnkað úr 86% í 61% á síðustu fimm árum.

Portúgalar eru stærstu framleiðendur á útvötnuðum saltfiski sem er þægilegur valkostur í staðinn fyrir þurrkaða saltfiskinn frá Noregi. Árið 2011 keyptu brasilískir neytendur um 4.500 tonn af útvötnuðum þorski. Það samsvarar um 10% af heildarsaltfiskmarkaðinum.

Markaðsmenn hjá Nofima segja að Norðmenn verði að taka þessa þróun alvarlega. Greinilegt sé að neytendur taki þægindin fram yfir flest annað. Hægt sé að matreiða útvatnaðan fisk strax og búið sé að þíða hann. Ekki þurfi að bíða í nokkra daga eins og þegar verið er að útvatna þurrkaða saltfiskinn.

Þá er talið að neytendur treysti sér ekki alltaf til að meta hvenær rétta saltinnihaldið sé komið þegar fiskurinn er útvatnaður. Það sé í það minnsta tryggara og áhættuminna þegar gestum er boðið í mat að kaupa útvatnaðan fisk.

Frosinn útvatnaður þorskur er dýr í Brasilíu. Í stórmarkaði í Rio de Janeiro kostar frosið útvatnað saltfiskstykki 195 krónur norskar á kílóið (4.360 ISK). Til samanburðar má nefna að þurrkað saltfiskstykki kostar 150 krónur á kílóið. Sé tekið með í reikninginn að þyngdin á fullsöltuðum fiski eykst eftir útvötnun er raunverulegur munur um 80 norskar krónu á kíló.

Þar sem salan eykst á útvatnaða saltfiskinum þrátt fyrir að hann sé dýrari þykir sýnt að þessi vara höfði til efnaðri hópa Brasilíumanna.

Það er vegið að norska saltfiskinum úr fleiri áttum. Saltaðir fiskbitar úr alaskaufsa sem framleiddir eru í Kína eru algeng sjón í verslunum í Brasilíu. Þessi vara er gjarnarn valin í staðinn fyrir þurrkaðan saltaðan ufsa frá Noregi. Hún er bæði handhægari og ódýrari en ufsinn frá Noregi.

Sérfræðingar hjá Nofima segja að Norðmenn þurfi að breyta framleiðsluháttum á saltfiski til að laga sig að breyttum neysluvenjum í Brasilíu og standast samkeppni við nýjar afurðir.