laugardagur, 19. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norskur sjávarútvegur: Tvöföld verðmætasköpun

26. maí 2010 kl. 15:00

Sjávarútvegur í Noregi skapar því sem næst jafnmikil verðmæti á öðrum sviðum samfélagsins og í eigin greinum. Þannig leiðir hver króna, sem verður til hjá sjávarútvegsfyrirtækjum, til 95 aura verðmætasköpunar annars staðar. Þessi margfeldisáhrif eru gríðarlega mikilvæg fyrir norskt samfélag ekki síst í hinum dreifðu byggðum landsins.

Þessir úrreikningar miðast við árið 2008 og voru gerðir af SINTEF, stærsta sjálfstæða ráðgjafafyrirtæki á Norðurlöndum, fyrir samtök sjávarútvegsins í Noregi. Mikilvægi sjávarútvegs að þessu leyti hefur aukist því fyrir tveimur árum skapaði hver króna í greininni um 60 aura annars staðar.

Sjávarútvegur eins og aðrir frumatvinnuvegir búa til mörg afleidd störf í hvers konar þjónustu. Norskur sjávarútvegur hafði mikið umleikis á árinu 2008, meðal annars var lagt í miklar fjárfestingar sem nema um 4,6 milljörðum NOK (92 milljarðar ISK), þar af fóru 1,8 milljarðar til fiskveiða, 1,6 milljarðar í fiskeldi og 1,2 milljarðar í fiskvinnslu.

Framlag norsks sjávarútvegs til landsframleiðslu 2008 er metið á 36 milljarða NOK (720 milljarða ISK). Frumgreinin sjálf, þ.e. veiðar, vinnsla og fiskeldi, skilaði 18,5 milljörðum en margfeldisáhrifin gáfu 17,5 milljarða til viðbótar. Hvert ársverk í sjávarútvegi skilaði um 700 þúsund NOK verðmætum til samfélagsins (14 milljónum ISK).

Á heildina litið voru unnin 44 þúsund ársverk árið 2008 í tengslum við norskan sjávarútveg. Við frumgreinina, veiðar, vinnsla og fiskeldi, unnu um 24 þúsund manns en 20 þúsund manns störfuðu í afleiddum greinum. Hvert ársverk í sjávarútvegi skapaði því nánar tiltekið 0,84 ársverk annars staðar.