þriðjudagur, 18. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norskur skipasmíðaiðnaður blómstrar

24. febrúar 2012 kl. 12:00

Prestfjord

Tíu stór fiskiskip í smíðum að verðmæti 55 milljarða ISK. Eldri norsk skip seld til Rússlands, Færeyja og Íslands

Mikil endurnýjun fiskiskipaflotans á sér stað í Noregi eins og fram hefur komið í Fiskifréttum. Viðskiptablað Aftenposten fjallar í dag um áhrif þessarar endurnýjunar á norskan skipasmíðaiðnað sem blómstrar um þessar mundir. Um 10 stór fiskiskip eru í smíðum í Noregi að verðmæti um 2,5 milljarða NOK (55 milljarðar ISK). Svipaður fjöldi fiskiskipa er í smíðum erlendis fyrir Norðmenn.

Í síðustu viku var ein nýsmíðin, skuttogarinn Prestfjord,  afhent eigendum. Skipið kostaði 260 milljónir NOK (5,7 milljarða ISK) og leysir af hólmi 25 ára gamlan togara með sama nafni. Nýja skipið þarf að veiða fyrir 90-100 milljónir á ári (2,1 milljarð ISK) til að fjárfestingin borgi sig. Útgerðin er bjartsýn enda er Prestfjord með þrjá kvóta en gamli togarinn var með einn kvóta þegar hann var smíðaður á sínum tíma. Útgerðarmaður skipsins segir að samþjöppun kvóta hafi verið forsenda fyrir endurnýjuninni.

Fyrir þremur árum var aðeins eitt stórt fiskiskip í smíðum í Noregi. Rifjað er upp í Aftenposten að nýsmíðar komi í bylgjum og ástandið nú minni á síðustu endurnýjunarbylgjuna sem reið yfir í kringum 1980.

Fram kemur einnig að eldri norsk fiskiskip, sem skipt verður út fyrir ný og fullkomin skip, séu aðallega seld til Rússlands, Færeyja eða Íslands.