mánudagur, 17. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norskur togari í öskuregni

14. maí 2010 kl. 12:00

Norski frystitogarinn Langvin sigldi undir öskuskýi frá Eyjafjallajökli í gærkvöldi um 60 sjómílur suður af landinu en skipið var þá á leið til veiða á úthafskarfamiðunum á Reykjaneshrygg.

Torbjörn Sörensen skipstjóri lýsti því svo að dimmt hefði verið yfir sjóndeildarhringnum og svart öskulag hefði myndast á þilfarinu. Skipstjórinn kvaðst um tíma hafa óttast að vélar og búnaður á dekki yrðu fyrir skemmdum en síðan kom í ljós að askan var svo fíngerð að hún olli ekki neinum vandræðum.

Í nótt rigndi svo og þá skolaðist askan að mestu af dekkinu líkt og slæmur andlitsfarði, eins og skipstjórinn orðaði það.

Frá þessu er skýrt á vef Fiskebaat, samtaka norskra útgerðarmanna.