sunnudagur, 17. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norskur togari setur aflamet

28. nóvember 2013 kl. 11:00

Gott holl á Gadus Poseidon.

Veiddi 1.250 tonn af þorski á 23 dögum

Áhöfnin á norska frystitogaranum, Gadus Poseidon, hefur sett nýtt norskt aflamet og veitt 1.250 tonn á aðeins 23 dögum, að því er fram kemur á vol.no sem er héraðsfréttavefur fyrir Vesterålen í Noregi.

Gadus Poseidon er í eigu Havfisk, stærstu útgerðar Noregs. Skipið, sem er hið glæsilegasta, var afhent nýsmíðað fyrr á þessu ári. „Við byrjuðum á því að veiða 600 tonn fyrstu vikuna.

Eftir að hafa landað þeim afla fórum við út og fylltum bátinn á ný. Alls höfum við veitt 1.250 tonn af þorski á 23 veiðidögum sem ég held að hljóti að vera norskt met. Þessi afli er rúmlega þriðjungur af heildarþorskkvóta okkar í ár sem er 3.200 tonn,“ segir Rino Grande, skipstjóri á Gadus Poseidon, í samtali við vol.no. 

Verðmæti aflans er áætlað 19 til 20 milljónir norskra króna (380 til 400 milljónir ISK).Skipstjórinn segir að þessi mikili afli hafi ekki komið niður á gæðum fisksins. „Við slægjum 6 til 8 tonn á klukkutíma og meðan fiskurinn bíður eftir því að komast í frystinn liggur hann í kælitönkum sem taka samtals 1,4 tonn,“ segir Rino Grande.