föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norður-Írland: Þriðjungur rækjuflotans stöðvast

20. október 2009 kl. 15:00

nái niðurskurðartillögur ESB fram að ganga

Hugmyndum framkvæmdastjórnar ESB um niðurskurð á rækjukvóta er fálega tekið á Norður-Írlandi og ráðamenn þar óttast alvarlegar afleiðingar fyrir rækjuflotann og rækjuiðnaðinn, að því er fram kemur á vef BBC.

Framkvæmdastjórn ESB hefur lagt til að rækjukvótinn verði skorinn niður um 30% á árinu 2010. Talsmaður fiskframleiðenda á Norður-Írlandi segir að 100 bátar innan samtaka hans eigi allt sitt undir rækjuveiðum. “Dæmið er einfalt. Þessi niðurskurður þýðir að við þurfum að leggja 30 bátum,“ segir hann.

Hann bætir því við að í County Down, einu héraði á Norður-Írlandi, séu fleiri rækjuverksmiðjur samankomnar á litlu svæði en annars staðar í heiminum. Líklega myndi ein þeirra að minnsta kosti hverfa úr rekstri nái hugmyndir framkvæmdastjórnar ESB fram að ganga. 

Michelle Gildernew, landbúnaðarráðherra Norður-Írlands, hefur lofað því að beita sér af hörku gegn niðurskurðartillögum framkvæmdastjórnarinnar. Haft er eftir ráðherranum að þessar hugmyndir valdi vonbrigðum og séu algjörlega óréttlætanlegar. “Fiskifræðingar hafa óyggjandi gögn um að rækjustofninn í Írska hafinu sé stöðugur og við munum kynna þau gögn fyrir framkvæmdastjórninni til að koma í veg fyrir þennan niðurskurð,“ segir ráðherrann.