sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norður-Noregur: Þriðja hver fiskvinnsla lögð niður

24. júní 2009 kl. 12:00

Norskur fiskiðnaður hefur gjörbreyst á síðustu 15 árum. Þriðja hver fiskvinnsla hefur lagt upp laupana í Norður-Noregi  á þessum tíma, að því er fram kemur í Fiskeribladet/Fiskaren. Auk þess hefur fiskvinnslan tapað 750 milljónum norskra króna á tímabilinu, eða 15 milljörðum íslenskra króna.

Þessar upplýsingar koma fram í niðurstöðum skýrslu sem fyrirtækið Nofima Marked vann fyrir opinbera aðila í Noregi. Í aðeins 5 ár af þessum 15 árum skilaði fiskiðnaður á svæðinu hagnaði á heildina litið, segir ennfremur í skýrslunni. Frá árinu 1995 hafa 120 fiskvinnslufyrirtæki hætt starfsemi. Flest þessara fyrirtækja eru í Nordland, Møre og Romsdal og Troms.

Haft er eftir einum af höfundum skýrslunnar að hagur einstakra fiskvinnslufyrirtækja hafi verið misjafn. Sum fyrirtæki hafi skilað hagnaði því sem næst á hverju ári. En í heild hafi afkoma í fiskiðnaði í Norður-Noregi verið slæm. Árið 2008 hafi verið sérstaklega erfitt fyrir fyrirtæki í botnfiskvinnslu og allt stefndi í það að árið 2009 yrði ennþá verra.