sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nóvemberaflinn fjórðungi meiri en í fyrra

14. desember 2011 kl. 09:10

Fisktegundir. (Mynd: Einar Ásgeirsson)

Bæði botnfiskaflinn og uppsjávaraflinn jukust frá sama mánuði í fyrra.

Fiskaflinn í nýliðnum nóvember varð 104.000 tonn samanborið við 84.000  tonn í nóvember 2010.

Botnfiskafli jókst um rúm 6.700 tonn samanborið við nóvember 2010 og var um 44.300 tonn. Þar af var þorskaflinn tæp 21.400 tonn, sem er aukning um rúm 4.200 tonn frá fyrra ári. Ýsuaflinn nam rúmum 5.600 tonnum sem er 82 tonnum meiri afli en í nóvember 2010. Karfaaflinn jókst um rúm 2.300 tonn samanborið við nóvember 2010 og nam um 7.300 tonn. Um 5.000 tonn veiddust af ufsa sem er rúmlega 1.100 tonnum meiri afli en í nóvember 2010. Um 4.900 tonn veiddust af öðrum botnfiskafla, sem er samdráttur um tæp 1.000 tonn frá nóvember 2010.

Rúmum 56.900 tonnum var landað af uppsjávarafla í nóvember síðastliðnum, samanborið við tæplega 44.200 tonna afla í nóvember 2010. Þar af var um 50.500 tonnum landað af síld, sem er um 6.500 tonna aukning frá fyrra ári. Tæp 6.400 tonn veiddust af loðnu en enginn loðnuafli var í nóvember 2010.

Flatfiskaflinn var rúm 1.800 tonn í nóvember 2011 sem er um 500 tonnum meiri afli en í nóvember 2010. Skel- og krabbadýraafli nam um 900 tonnum og jókst um tæp 300 tonn frá nóvember 2010.

Sjá nánar á vef Hagstofunnar.