sunnudagur, 17. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nú gert ráð fyrir 12.000 tonna eldi í Ísafjarðardjúpi

19. mars 2020 kl. 11:10

Laxeldi er í mikilli sókn á Íslandi og er jafnframt umdeilt.

Nýtt áhættumat erfðablöndunar Hafrannsóknastofnunar gerir ráð fyrir því að ala megi 106.500 tonn af laxi í sjó – en fyrra áhættumat gerði ráð fyrir að það magn væri 71.000 tonni að hámarki.

 

Nýtt áhættumat erfðablöndunar Hafrannsóknastofnunar gerir ráð fyrir því að ala megi 106.500 tonn af laxi í sjó – en fyrra áhættumat gerði ráð fyrir að það magn væri 71.000 tonni að hámarki. Ein stærsta breytingin við endurskoðað mat er að leyfilegt verður að ala 12.000 tonn í Ísafjarðardjúpi.

Aukning á eldi á einstökum svæðum er með þeim hætti að eldismagn á Vestfjörðum er aukið úr 50.000 tonnum í 64.500 tonn. Á Austfjörðum verður heimilt að ala helmingi meira en fyrra áhættumat gerði ráð fyrir – 42.000 tonn í stað 21.000 tonna áður.

Hafrannsóknastofnun leggur til að eldi verði ekki stundað nær veiðiám í botni Ísafjarðardjúps en sem nemur línu frá Ögurnesi að Æðey og Hólmasundi.

Þá er lagt til að ef notuð eru 400 gramma seiði megi auka hámarkslífmassa í Ísafjarðardjúpi í 14.000 tonn. Í Fáskrúðsfirði og Reyðarfirði er lagður til hámarkslífmassi geti orðið 14.000 og 18.000 tonn ef 400 gramma seiði eru sett út í kvíar.

Mótvægisaðgerðir voru kynntar á fundinum í morgun. Ár verða vaktaðar sérstaklega í Ísafjarðardjúpi með Árvaka búnaði. Fiskar verða þar vaktaðir í rauntíma og streymt á vef. Tæknin leyfir að greina tegund, kyn og villtan fisk frá eldisfiski.

Skimun verður með eDNA í sem flestum ám. Með þeirri tækni er hægt að taka sýni úr ám og sjá hvort eldisfiskur er þar á ferðinni.

Unnið að aðferðum við að framleiða kynlausan fisk.

Gert er ráð fyrir að vakta Breiðdalsá sérstaklega með samskonar búnaði sem hefjist 2021.

Unnið var áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar frá laxeldi í sjókvíum á Vestfjörðum og Austfjörðum árið 2017. Matið var unnið í samstarfi með erlendum sérfræðingum á sviði stofnerfðafræði.

Frumforsenda greiningarinnar er að náttúrulegir laxastofnar skaðist ekki. Sé tekið tillit til varúðarsjónarmiða er miðað við að fjöldi eldislaxa verði ekki meira en 4% í ánum en erfðablöndun verði mun lægri. Búið var til dreifingarlíkan sem sýnir hvernig eldislax getur dreifst frá eldissvæðum á Vestfjörðum og Austfjörðum. Fjöldi eldislaxa sem getur komið í ár er háður fjarlægð frá eldissvæði og umfangi eldisins.

Á þeim tíma var unnt að auka við eldið ef um ófrjóan lax var að ræða, en eldið er ekki síst umdeilt vegna hættu á erfðablöndun eldisfisks og villts lax.

Þá var talið mögulegt að ala allt að 61.000 tonn af ófrjóum laxi miðað við þáverandi burðarþolsmat fyrir svæðið. Eldi á ófrjóum laxi á Vestfjörðum getur því orðið allt að 30.000 tonn til viðbótar við framleiðslu á frjóum laxi og á Austfjörðum gæti eldi á ófrjóum laxi orðið 31.000 tonn til viðbótar við framleiðslu á frjóum laxi.

„Aðrir þættir geta jafnframt takmarkað umfang eldisins eins og endurskoðað burðarþol, óæskileg áhrif laxalúsar, stærð heppilegra eldissvæða og ef vart verður við óæskileg áhrif á hrygningu eða uppeldi nytjastofna sjávar,“ sagði þá í kynningu Hafrannsóknastofnunar.