þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nú þegar komin 1.100 tonn

Guðjón Guðmundsson
24. febrúar 2019 kl. 09:00

Helgi Aage Torfason skipstjóri. MYND/ÞORGEIR BALDURSSON.

Kristrún RE á grálúðuveiðum fyrir norðan en það er þó ekki alltaf tekið út með sældinni. Veðurfarið í vetur hefur ekki beinlínis verið hliðhollt sjómönnum og áhöfnin á Kristrúnu hefur mátt berja ísinn af stálinu á köflum.

Áhöfnin á Kristrúnu RE hefur verið að gera það gott á grálúðu en það er þó ekki alltaf tekið út með sældinni. Veðurfarið í vetur hefur ekki beinlínis verið hliðhollt sjómönnum og áhöfnin á Kristrúnu hefur mátt berja ísinn af stálinu á köflum. Kristrún RE er komin með 1.100 tonn af grálúðu á þessu fiskveiðiári sem er þó ekki einu sinni hálfnað. Á síðasta fiskveiðiári var heildaraflinn í grálúðu hjá Kristrúnu 1.952 tonn.

„Við erum búnir að vera á grálúðu samfellt núna í rúmt eitt ár. Við höfum verið að veiðum með Norðurlandinu, allt frá Horni að vestan og austur fyrir land. Veiðarnar hafa gengið upp og ofan en það var ágætt framan af en róaðist svo yfir sumarið og fram eftir hausti. Síðan hefur þetta verið dálítið kropp enda verið mjög erfið tíð á þessum slóðum þennan veturinn,“ segir Helgi Aage Torfason, skipstjóri á Kristrúnu.

28-30 daga úthald

Hann segir að stundum sé þetta hálfgerð vosbúð. Það hafi verið stanslausar norðanáttir og menn hafa lent í ísingu. Engu að síður hafi gengið vel að manna skipið og litlar sem engar breytingar orðið á áhafnarlistanum í rúmt eitt ár. Þegar komið er á miðin eru lagðar átta trossur og þær dregnar á þriggja til fjögurra daga fresti. Allur gangur er á því hvað fæst í trossu, jafnvel alveg frá einu tonni upp í tíu tonn en algengt er að það fáist 2-4 tonn í trossu. Grálúðan er hausuð og sporðskorin og heilfryst um borð. Úthaldið er 28 til 30 dagar. Yfir háveturinn verða svo alltaf frátafir vegna veðurs.

„Við erum mjög ánægðir ef við fáum þetta 180-220 tonn eftir túrinn. Þetta eru mjög mannskapskrefjandi veiðar og öðru vísi en á trollinu. Helmingur mannskapsins er alltaf í veiðarfærinu að gera það klárt meðan hinir eru í frystingunni. Við erum sextán í áhöfn og veitir ekkert af svona gegnumsneitt,“ segir Helgi

Fiskkaup hf. gerir út Kristrúnu sem er 765 brúttótonna skip smíðað í Noregi 1988. Það hefur einnig verið gert út á línuveiðar en hefur, sem fyrr segir verið eingöngu á grálúðu í rúmt eitt ár.

Skipum fjölgar

Grálúðan fer öll á Asíumarkað og fæst gott verð fyrir aflann. Það er af sem áður var að lítið var hirt um grálúðuna. Það hafa ekki mörg skip verið á grálúðuveiðum og lengi vel var Kristrún ein um hituna. Nú hafa bæst við skip frá Samherja, Þórsnesi og Kap frá Vestmannaeyjum hefur verið við þessar veiðar hluta úr ári. Helgi hefur heyrt að þeim fari enn fjölgandi sem stefni á grálúðuna.

„Í fyrra þegar fór að fjölga fannst mér veiðin greinilega minnka. En sem betur fer dreifðu menn sér vel seinna um svæðið og árangurinn varð betri.“

Íslensk heimili hafa almennt lítið af grálúðunni að segja. Helgi hefur snætt hana grafna og reykta og þótti hún góður matur. Hún var einu sinni elduð um borð í Kristrúnu og sló hún ekki gegn. „Þetta er mjög feitur fiskur. En þeir eru hrifnir af henni þarna fyrir austan og borga vel fyrir hana sem er besta mál.“