laugardagur, 24. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ný Bergey afhent í Noregi

1. október 2019 kl. 15:41

Nýja Bergey VE er eitt sjö systurskipa sem fjórar útgerðir kaupa til landsins. Mynd/Guðmundur Alfreðsson

Bergey mun halda beint til Akureyrar þar sem Slippurinn mun annast frágang á millidekki og gæti verið komin þangað á laugardagskvöld.

Ný Bergey VE var í dag afhent Bergi-Hugin, dótturfyrirtæki Síldarvinnslunnar í Vestmannaeyjum, í Aukra í Noregi. Bergey er eitt af sjö skipum sem skipasmíðastöðin Vard smíðar fyrir íslensk fyrirtæki og er hún systurskip Vestmannaeyjar VE sem afhent var Bergi-Hugin í júlímánuði sl.

 Frá þessum tímamótum er greint á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Um er að ræða togskip sem er 28,9 metrar að lengd og 12 metrar að breidd. Stærð þess er 611 brúttótonn. Skipið er m.a. búið tveimur aðalvélum og tveimur skrúfum.

„Afhending skipsins fór fram með viðhöfn í morgun og er gert ráð fyrir að það sigli áleiðis til Íslands á morgun. Bergey mun halda beint til Akureyrar þar sem Slippurinn mun annast frágang á millidekki og gæti verið komin þangað á laugardagskvöld. Væntanlega mun Bergey ekki koma til heimahafnar í Vestmannaeyjum fyrr en einhvern tímann í desembermánuði,“ segir í frétt Síldarvinnslunnar.