

Drög að reglugerð um hrognkelsaveiðar 2020 hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Jafnframt er í gáttinni birt skýrsla vinnuhóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem falið var að koma með tillögur um hvernig hægt væri að draga úr meðafla við grásleppuveiðar, einkum spendýra og fugla. Í vinnuhópnum sátu fulltrúar frá ráðuneytinu, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun, Landhelgisgæslunni.
Fram kemur í frétt á vef Landssambands smábátaeigenda (LS) að samtökunum, en félagsmenn þess eiga eðli málsins samkvæmt mikilla hagsmuna að gæta í málinu, var ekki kunnugt um störf vinnuhópsins fyrr en á fundi með sjávarútvegsráðherra 27. nóvember. Þar var boðuð birting reglugerðardraga í fyrstu viku desember. Á fundinum óskaði LS eftir að fá að sjá reglugerðardrögin en þeirri beiðni hafnaði sjávarútvegsráðherra. Vinnuhópurinn leitaði ekki með formlegum hætti eftir sjónarmiðum LS í starfi sínu, segir í fréttinni.
Sérstakt eftirlitsátak sagt nauðsynlegt
Í skýrslu vinnuhópsins kemur m.a. fram að sérstakt eftirlitsátaks er þörf. Til að það skili árangri þurfa eftirlitsferðir að vera minnst 202, sem er sá fjöldi sem þarf til að ná 5% þekju á næstu vertíð. „Fiskistofa telur að hún ráði við þennan fjölda ferða án þess að ráða nýja eftirlitsmenn, en lítið annað sjóeftirlit mun á fara fram á sama tíma“, segir í skýrslunni.
Í reglugerðardrögunum eru helstu breytingar frá gildandi reglugerð eftirfarandi:
Afnám svæðaskiptingar (að undanskildum innanverðum Breiðafirði).
Upphafstími veiða verði 1. mars í stað 20. mars.
Áður en veiðiferð hefst skal útgerð sjá til þess að báturinn hafi þær aflaheimildir sem dugi fyrir ætluðum meðafla í veiðiferðinni.
Grásleppunet skulu dregin eigi síðar en þremur sólarhringum, í stað fjögurra eins og nú er, eftir að þau eru lögð í sjó.
Hámarkslengd neta á hvern bát verði stytt um helming verði 3.750 m í stað 7.500 m.
Fiskistofu verði heimilt að svipta bát veiðileyfi ef um óeðlilega veiði á botnfisktegundum að ræða þannig að magn botnfiskstegunda í þorskígildum talið sé ítrekað svipað eða meira en magn grásleppuaflans í þorskígildum talið.
Fellt er út ákvæði um skil á veiðiskýrslu
Umsóknarfrestur til grásleppuveiða verður frá 15. janúar - 15. febrúar 2020 og verða umsóknir sem berast eftir þann tíma ekki teknar til greina. Umsagnarfrestur til athugasemda við reglugerðardrögin er til og með 15. janúar 2020.