miðvikudagur, 23. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ný frystigeymsla tekur á sig mynd

26. ágúst 2020 kl. 16:40

Ef allt gengur eftir verður hægt að nýta fyrsta áfanga hússins strax í haust. Mynd/Þorgeir Baldursson

Eskja á Eskifirði byggir frystigeymslu sem mun leysa af hólmi geymslur í heimabyggð og á fleiri stöðum - sem er hagkvæmt og skilvirkt.

Framkvæmdir við nýja frystigeymslu Eskju á Eskifirði ganga vel. Vinna við fyrsta áfangann hófst í maí þegar fyrstu staurar voru reknir niður. Þegar sá hluti hússins verður risinn verður rými fyrir allt að 9.000 tonn af afurðum. Alls er gert ráð fyrir þremur áföngum í þessum framkvæmdum og allt að 20.000 tonna frystigeymslu í heildina.

Vonir standa til þess að geta nýtt helming hússins í september þegar síldveiðar standa sem hæst, að því er Hlynur Ársælsson, rekstrarstjóri uppsjávarfrystihúss Eskju, sagði Fiskifréttum fyrr í sumar.

Geymslur hér og þar

Frystigeymslan í nýrri uppsjávarverksmiðju Eskju tekur 3.000 tonn og einnig er fyrirtækið með frystigeymslu á Reyðarfirði og önnur er í gamla frystihúsinu á Eskifirði. Samkvæmt nýju skipulagi stendur til að rífa það hús. Einnig hefur Eskja haft hluta af sínum uppsjávarafurðum í frystigeymslum erlendis með aukakostnaði öfugt við það sem verða mun þegar fyrirtækið getur geymst sínar afurðir sjálft.

Eskja hefur fjárfest síðustu árin. Nýja uppsjávarfiskiðjuverið var reist árið 2016 við hlið mjöl- og lýsisvinnslu félagsins. Nýja hátæknihúsið afkastar á einum degi álíka miklu og áður tók viku að frysta á sjó. Afköstin geta farið upp í 750 tonn á dag í makríl þegar best gengur.