sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ný leið til að nálgast erlenda viðskiptavini

Guðjón Guðmundsson
26. júní 2021 kl. 09:00

Auglýsingarnar eru á léttum nótum og fjalla um tæknibúnað fyrirtækisins en ekki síður náttúru Íslands og þjóð. Aðsend mynd

Siggi the Polar Bear í kynningarmyndböndum Skagans 3X

Hátæknifyrirtækið Skaginn 3X hefur hafið markaðskynningu á vörum sínum undir öðrum formerkjum en verið hefur. Aðalsöguhetjan í nýjum auglýsingum fyrirtækisins er Sigurður Skúlason, margreyndur sölumaður á frystitækjum Skagans 3X, sem er þekktur sem Siggi the Polar Bear, hjá erlendum viðskiptavinum fyrirtækisins.

Auglýsingarnar eru á léttum nótum og eru settar fram í myndböndum sem fjalla um tæknibúnað fyrirtækisins en ekki síður um náttúru Íslands og þjóð

„Eins og önnur fyrirtæki í þessari grein og með tilliti til heimsfaraldursins þurftum við að bregðast við ástandinu. Við gerðum það með því að hugsa aðeins út fyrir kassann. Eins og hendi væri veifað gátu sölumenn okkar ekki lengur ferðast frá Íslandi og við gátum þar af leiðandi ekki nýtt okkur þær leiðir sem við höfðum fram að því stuðst við í kynningu á okkar vörum,“ segir Bylgja Pálsdóttir, markaðsstjóri hjá Skaganum 3X.

Á sama tíma jókst eftirspurn eftir frystum stórlega út um allan heim vegna ástandsins. Þegar faraldurinn skall á neyddust veitingahús víða um heim til þess að loka og verslun með ferskan fisk nánast lagðist af. Neytendum þótti öruggara að kaupa frosinn fisk fremur en ferskan með tilliti til Covid 19. Ferskfiskframleiðendur sneru sér að frystingu aflans og hrina fyrirspurna barst til Skagans 3X um frysta.

„Þegar við vorum komin með nokkrar hugmyndir um nýja markaðsátakið kom jafnvel til greina að ráða leikara til að koma skilaboðunum á  framfæri. En í raun kom engin annar til greina en hann Siggi sem hefur selt frysta frá Skaganum 3X í yfir 20 ár. Hann hafði fyrir löngu fengið viðurnefnið Siggi the Polar Bear hjá viðskiptavinum okkar og við sjáum strax í hendi okkar að við þyrftum ekki að leita lengra.“

Vekur athygli víða

Bylgja segir að markaðsátakið sé þaulskipulagt. Fyrirtækið er í þeim viðskiptum að selja öðrum fyrirtækjum vöru og þjónustu en að baki þessum fyrirtækjum séu ávallt manneskjur. Útgangspunkturinn hafi verið sá að tengjast þessum aðilum með stuttum og fróðlegum myndböndum þar sem slegið er á létta strengi og lausnir Skagans 3X eru kynntar og um leið staðreyndir um landið sjálft.

„Móttökurnar hafa verið gríðarlega góðar. Netmiðlar eins og Seafoodsource.com og Worldfishing.net hafa fjallað um átakið. Margir viðskiptavina okkar hafa notað tækifærið til að grínast í Sigga en hann tekur því með jafnaðargeði. Við tókum vissa áhættu að fara þessa leið því að lausnir okkar kalla á talsverða fjárfestingu hjá viðskiptavinum okkar.“

Út er komið fyrsta myndbandið sem er kynning á Sigga the Polar Bear. Til viðbótar hafa verið framleidd tíu myndbönd þar sem fjallað er um hinar köldu staðreyndir, Cold Facts, um Ísland og frásagnarmaðurinn er Siggi the Polar Bear.

Inni á vefsíðunni www.skaginn3x.com/cold-facts mun á næstu vikum birtast nýtt myndband vikulega. Þar er líka hægt að lesa sig til um kynninguna og séð nýju myndböndin.