mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ný og hærri veiðiráðgjöf í makríl

9. maí 2014 kl. 15:13

Makríll (Mynd: Þorbjörn Víglundsson)

Alþjóðahafrannsóknaráðið leggur til allt að milljón tonna veiði á þessu ári.

Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) hefur nú endurskoðað veiðiráðgjöf sína í makríl fyrir yfirstandi ár og leggur til að veiðin verði á bilinu 927-1.011 þúsund tonn. Áður hafði ICES ráðlagt að veiðin færi ekki fram yfir 890 þúsund tonn á þessu ári en það var ekki byggt á vísindalegum gögnum heldur á meðaltali veiða á síðustu árum. 

Í febrúar síðastliðnum settust vísindamenn niður og endurmátu þær aðferðir sem notaðar hafa verið við mat á makrílstofninum í NA-Atlantshafi. Hingað til hefur fyrst og fremst verið byggt á talningu makríleggja á þriggja ára fresti en nú eru að hluta teknar með í reikninginn síðari tíma rannsóknir sem byggjast annars vegar á togmælingum og hins vegar á merkingum makríls. 

Ljóst er að veiðin í ár mun fara verulega fram úr þessari nýju veiðiráðgjöf ICES því veiðiþjóðirnar hafa þegar ákveðið kvóta yfirstandandi árs. Nýgerður samningur ESB, Færeyja og Noregs gerir ráð fyrir 1.047 þúsund tonnum þeim til handa. Þá hefur Ísland sett sér 140 þús. tonna kvóta og Grænland 100 þús. tonn. Þetta gerir tæplega 1,3 milljónir tonna og þá eru ótaldar veiðar Rússa og annarra þjóða. Því má ætla að veiðin verði í námunda við 1,4 milljónir tonna eða 40% meira en ICES leggur til í þessari nýju veiðiráðgjöf.