sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ný skipasmíðastöð Trefja tekin í notkun

17. nóvember 2008 kl. 12:24

Trefjar hf. gætu smíðað 50 báta á ári í nýrri skipasmíðastöð sem tekin var formlega í notkun í síðustu viku.

Stöðin er 3.200 fermetrar að grunnfleti og stendur við Óseyrarbraut í Hafnarfirði. Á síðustu mánuðum og misserum hafa Trefjar fyrst og fremst smíðað báta fyrir erlenda kaupendur.

Trefjar standa nú á tímamótum því 30 ár eru liðin frá stofnun fyrirtækisins og hafa tæplega 400 bátar verið smíðaðir á því tímabili.

Fyrst voru framleiddir bátar undir tegundaheitinu SKEL sem hugsaðir voru fyrir íslenska smábátasjómenn. Síðan var þróun ný hraðbátalína undir nafninu Cleopatra sem er aðalframleiðsluvara fyrirtækisins í dag.

Hin síðari ár hefur útflutningur báta frá fyrirtækinu aukist mikið og á þessu ári er svo komið að 9 af hverjum 10 bátum fara til erlendra kaupenda. Helstu markaðir eru í Norður-Evrópu, einkum í Noregi, Bretlandi, Írlandi og Svíþjóð.

„Við erum núna að hefja framleiðslu á 15 metra bátum, sem eru stærri bátar en unnt er með góðu móti að smíða í gömlu stöðinni. Með því að stækka bátana gerum við okkur vonir um að geta víkkað út markaðinn, ekki síst erlendis,” sagði Högni Bergþórsson framkvæmdastjóri Trefja hf. í samtali við Fiskifréttir.

 Nánar er fjallað um málið í nýjustu Fiskifréttum.