mánudagur, 10. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýi Beitir með 2.850 tonn úr fyrsta túr

20. janúar 2016 kl. 13:37

Beitir NK hinn nýi. (Mynd: Hákon Ernuson)

Allt gekk vel og meðalafli í holi var 300 tonn.

Beitir NK kom til Neskaupstaðar úr sinni fyrstu veiðiferð síðdegis í gær. Aflinn var 2.850 tonn af kolmunna sem fékkst í færeysku lögsögunni. Löndun hófst strax og skipið kom til hafnar en þegar lokið var við að landa tæplega 400 tonnum bilaði spennir í fiskimjölsverksmiðjunni og því þurfti það að halda til Seyðisfjarðar og ljúka löndun þar. Það mun taka einn til tvo daga að skipta um spenni.

Sturla Þórðarson, skipstjóri á Beiti, sagði að veiðiferðin hefði gengið vel í alla staði. „Auðvitað tekur alltaf tíma að venjast nýju skipi en þetta gekk allt eins og best verður á kosið. Það aflaðist þokkalega en að meðaltali fengum við um 300 tonn í holi,“ segir Sturla í samtali á vef Síldarvinnslunnar. 

Börkur NK kom með um 2.000 tonn af kolmunna til Neskaupstaðar sl. laugardag og Bjarni Ólafsson AK landaði 1.500 tonnum á Seyðisfirði sl. sunnudag. Gunnar Sverrisson, rekstrarstjóri fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar, segir að kolmunninn sem nú berst að landi sé úrvalshráefni enda komi skipin með allan afla vel kældan.

Börkur NK var í morgun kominn með 650 tonn af kolmunna og var að toga. Létu þeir Barkarmenn þokkalega af sér. Bjarni Ólafsson AK hafði fengið 350 tonn í fyrsta holi sl. nótt.