laugardagur, 4. apríl 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýi Þór afhentur í dag

23. september 2011 kl. 08:29

Ný Þór við bryggju.

Heimsiglingin tekur rétt rúman mánuð

Í dag verður varðskipið Þór afhent Landhelgisgæslunni við hátíðlega athöfn í Asmar skipasmíðastöð sjóhersins í Chile. Áætlað er að skipið sigli frá Chile nk. þriðjudag 27. september, að því er segir í frétt frá Landhelgisgæslunni.

Siglt verður í gegnum Panamaskurð og í heimleiðinni farið í kurteisisheimsóknir til bandarísku og kanadísku strandgæslunnar. Gert er ráð fyrir að skipið komi til  Íslands 26. október 2011.

Smíði Þórs hófst þann 16. október 2007 og var varðskipið sjósett 29. apríl 2009 og hlaut þá nafnið Þór sem dregið er úr norrænni goðafræði. Þegar einungis rúmur mánuður var í afhendingu, laugardaginn 27. febrúar 2010 reið öflugur jarðskjálfti, 8,8 stig á Richter yfir Chile. Í kjölfar jarðskjálftans reið gífurleg flóðbylgja yfir svæðið og olli hún gífurlegri eyðileggingu. Miklar skemmdir urðu á skipasmíðastöðinni þar sem Þór var í smíðum. Vegna jarðskjálftans og flóðbylgjunnar seinkaði afhendingu varðskipsins um rúmlega eitt ár.

Helstu stærðir Þórs:

•    Lengd        93,65 m
•    Brúttótonn    4250 T   
•    Breidd         16,00 m
•    Ganghraði      19,5 sjómílur
•    Dráttargeta     120 tonn       
•    Mesta djúprista 5,80 m
•    Áhöfn 14-18 manns, björgunarbúnaður fyrir 48 manns.

Skip Landhelgisgæslunnar hafa áður borið nafnið Þór. Fyrsta björgunarskipið sem kom til landsins bar nafnið Þór en það var upphaflega keypt af Björgunarfélagi Vestmannaeyja þann 26. mars árið 1920 til björgunarstarfa við Vestmannaeyja. Skipið varð síðar eða árið 1926 upphafið að stofnun Landhelgisgæslunnar. Varðskip í þjónustu Landhelgisgæslunnar hafa borið þetta nafn frá þessum tíma og allt til ársins 1986. Nafnið fór svo úr eigu Landhelgisgæslunnar til útgerðarfélagsins Stálskipa ehf. í Hafnarfirði en Guðrún Lárusdóttir framkvæmdastjóri fyrirtækisins heimilaði Landhelgisgæslunni að nýta nafnið.