þriðjudagur, 28. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýir eigendur Martaks

3. febrúar 2016 kl. 14:25

Frá vinstri: Stefán Haukur Tryggvason, framkvæmdastjóri, Vilhelm Þór Þórarinsson, tæknistjóri, Jón Ósmann Arason, stjórnarformaður og Ómar Ásgeirsson stofnandi Martaks.

Martak er annað af tveimur leiðandi fyrirtækjum í heiminum í lausnum fyrir rækjuvinnslu

Jón Ósmann Arason leiðir hóp nýrra eigenda sem keypt hafa Martak ehf. af Ómari Ásgeirssyni sem stofnaði Martak árið 1995 og byggði það upp frá grunni í það að verða annað af tveimur leiðandi fyrirtækjum í heiminum í lausnum fyrir rækjuvinnslu. Lykilstarfsmenn Martaks eru í eigendahópnum, að því er segir í fréttatilkynningu frá nýjum eigendum Martaks.

Martak býður upp á lausnir í matvælavinnslu og hefur verið leiðandi í þróun og framleiðslu búnaðar og heildarlausna fyrir rækjuvinnslu víða um heim. Vöruþróun fyrir rækjuiðnaðinn hefur leitt af sér vörur fyrir aðra matvælavinnslu, meðal annars pækilkælikerfi sem nýtist í allri framleiðslu fyrstra matvara, tryggir ferskleika  og eykur frystigetu verksmiðja umtalsvert.

Markmið nýrra eigenda er að byggja á sterkum grunni fyrirtækisins í lausnum fyrir fiskvinnslu og sjávarútveg og nýta viðskiptasambönd sín til sækja fram á mörkuðum. Nýir eigendur telja veruleg tækifæri liggja í að nýta breikka viðskiptamannahóp innan matvælaiðnaðar og leita nýrra markaða fyrir lausnir félagsins. „Martak hefur vaxið og dafnaðu undanfarin ár og náð markverðum árangri sem annað tveggja fyrirtækja í heiminum með heildarlausnir fyrir rækjuvinnslu. Það er tilhlökkunarefni að takast á við verkefni fyrirtækisins með nýjum eigendum sem horfa til langtíma uppbyggingar og sóknar,“ segir Stefán Haukur Tryggvason, framkvæmdastjóri Martaks sem mun áfram leiða fyrirtækið.

Martak ehf. er í hópi öflugustu útflutningsfyrirtækja Íslands og í fararbroddi í þróun og framleiðslu á lausnum og búnaði til vinnslu rækju afurða. Hjá Martak starfa að jafnaði um 20 manns á Íslandi. Fyrirtækið er með tvær starfsstöðvar, vöruþróun, framleiðsla, sala og þjónusta á Íslandi og þjónusta og sala í Kanada, auk umboðsmanna og dreifingaraðila í Bandaríkjunum og víðs vegar um Evrópu.