sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýjar tegundir hrygna við Noreg

13. maí 2021 kl. 08:00

Vínlandskarfi er ein hinna nýju tegunda. Aðsend mynd

Norska hafrannsóknastofnunin hefur uppgötvað fjórar nýjar tegundir sem hrygna í Norðursjó.

Uppgötvunin var gerð í tengslum við kortlagningu hrygningar sem stofnuninni þykir nauðsynlegt að gera í ljós skjálftavirkni á vissum svæðum í Norðursjó sem tengjast olíuleit og -vinnslu.

Greint er frá þessu á heimasíðu norsku hafrannsóknastofnunarinnar. Þar segir að egg og lirfur geti verið viðkvæmar fyrir jarðskorpuhreyfingum og til þess að valda sem minnstum usla í lífríkinu þurfi að kortleggja þau svæði þar sem hrygning fer að mestu fram. Rannsóknirnar hafa farið fram síðastliðin fjögur ár.

Á heimasíðunni segir einnig að lengi hafi verið þörf á ítarlegri og uppfærðri mynd af samsetningu mismunandi fisktegunda og hrygingarferlum þeirra í Norðursjó. Við þessar rannsóknir hafi fundist fjórar tegundir sem ekki hefur verið vitneskja um að hrygndi á svæðinu. Nýliðarnir eru jeffreys kýtlingur, kristalskýtlingur, deplalúra og vínlandskarfi. Sá síðarnefndi er skyldur karfategund sem veiðis við Noregsstrendur en heimkynni hans hafa verið norðvesturhluti Atlantshafsins.

Stofnunin segir að tíminn muni leiða í ljós hvort þessar tegundir hafi fest sig í sessi í Norðursjónum og hvort þær muni keppa við aðrar tegundir sem þar eiga heimkynni.