föstudagur, 14. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýju reglurnar strax gagnrýndar

25. nóvember 2017 kl. 07:00

Höfnin í Nuuk, höfuðborg Grænlands. MYND/HILMAR ÖGMUNDSSON

Grænlenska þingið hefur samþykkt nýtt veiðigjaldakerfi sem tekur gildi um áramót

Heildarálagning veiðigjalda hækkuð um ríflega fimmtung til að stoppa upp í fjárlagagat næsta árs. Strandveiðum verður að stórum hluta hlíft við veiðigjöldum.

Ný löggjöf um veiðigjöld var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta á grænlenska þinginu á mánudag, þrátt fyrir harða gagnrýni.

Gagnrýnin hefur snúist um að greinin muni ekki ráða við að greiða hærri veiðigjöld. Að minnsta kosti sé ljóst að hagkvæmnin í greininni mun ekki verða meiri, og samkvæmt fréttum hefur grænlenska stjórnin tekið undir það þótt hún haldi því fram að greinin muni samt ráða við hækkunina.

Stoppað upp í fjárlagagat
Heildarálagning í nýja veiðigjaldakerfinu 2018 er áætluð um það bil 380 milljónir danskar, eða 6,2 milljarðar í íslenskum krónum. Þetta er 70 milljón danskra króna hækkun frá ætlun 2018 samkvæmt eldri veiðigjaldalögum, eða ríflega fimmtungs hækkun.

Að sögn Hilmars var mikilvægt að þetta frumvarp yrði samþykkt vegna þess að búið var að gera ráð fyrir þessum tekjuauka í fjárlögum ársins 2018.

„Hefði nýja veiðigjaldafrumvarpið ekki verið samþykkt hefði orðið um það bil 60 milljóna halli á fjárlögum,“ segir Hilmar, en það samsvarar 978 milljónum íslenskra króna. Áætlaður afgangur á fjarlögum 2018 er nú ráðgerður 10 milljónir danskar, eða 163 milljónir íslenskar.

Það er víðar en á Grænlandi sem fiskveiðistjórn og veiðigjöld eru í endurskoðun. Færeyingar eru einnig að vinna að heildarendurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfi sínu og Danir eru sömuleiðis farnir að huga að breytingum á sínu fiskveiðistjórnarkerfi.

Þá hefur einnig staðið til hér á landi að gera breytingar á lögum um veiðileyfagjald, en núverandi löggjöf rennur út í lok næsta árs.

gudsteinn@fiskifrettir.is