laugardagur, 19. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýjung í togveiðitækni

4. maí 2016 kl. 17:35

Ruth hin nýja.

Danska uppsjávarskipið Ruth dregur tvö troll samtímis. Veiðarfærin eru frá Cosmos Trawl, dótturfélagi Hampiðjunnar í Danmörku.

Fyrir nokkru var nýtt uppsjávarveiðiskip, Ruth, afhent samnefndu útgerðarfélagi í Hirtshals í Danmörku. Skipið er 87,80 metra langt og 16,60 metra breitt, smíðað hjá Karstensen skipasmíðastöðinni, og hið fyrsta sinnar gerðar sem útbúið er til að draga tvö flottroll samtímis. Veiðarfærin eru frá Cosmos Trawl, dótturfélagi Hampiðjunnar í Danmörku, og eru þau og tilheyrandi búnaður sniðinn að þörfum útgerðarinnar. Þetta kemur fram á vef Hampiðjunnar. 

Að sögn Arne Olesen Sölu-og tæknistjóra hjá Cosmos Trawl er nýjungin varðandi útfærsluna á Ruth sú að skipið er útbúið með þremur togvindum og það getur togað samtímis með tveimur stórum flottrollum eða einu trolli sem þá er útbúið með svokölluðum buxnapoka. Það þýðir að á trollinu eru tveir pokar eða spenar sem hægt er að dæla úr samtímis með tveimur fiskdælum sem eru bakborðs- og stjórnborðsmegin aftan á skipinu. Fyrir vikið er minni þrýstingur á fiskinum en ef veitt væri með flottrolli með einum togpoka og gæði hráefnisins verða að sama skapi mun meiri.

Það er ekkert nýtt að skip veiði með fleiru en einu trolli samtímis enda eru slíkar veiðar algengar þegar botntroll eru annars vegar. Smærri skip hafa veitt með tveimur litlum flottrollum en þetta er í fyrsta skipti sem þessari tækni er beitt á stóru skipi, hvað þá svo stóru skipi sem Ruth svo sannarlega er, segir Arne Olesen. 

Haraldur Árnason, framkvæmdastjóri Cosmos Trawl í Danmörku, segir að þessi aðferð að draga tvö flottroll sé mjög spennandi verkefni. Tilraunatankurinn í Hirtshals hafi verið notaður til að þróa þessa tækni með tæknimönnum Cosmos Trawl í mjög góðu samstarfi við skipstjóra og eigendur útgerðarinnar sem hafa gengið með þessa hugmynd í maganum lengi. Módelin komi vel út í tanki, en auðvitað sé annað mál að prófa þetta við raunverulegar aðstæður en allar tilraunir sem gerðar voru lofa góðu. Fyrirhugað er að byrja að prófa þessa aðferð í þessum mánuði og munum við fylgjast vel með því ferli í góðu samstarfi við áhöfn og útgerð.