mánudagur, 16. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýjung: Tæki sem velur fisk í trollpokann

30. október 2008 kl. 12:42

Stjörnu-Oddi vinnur að þróun flokkunarbúnaðar sem velur sjálfvirkt neðansjávar fiskstærðir og fisktegundir sem æskilegt þykir að halda eftir í trollinu en hleypir hinum fiskinum út.

Frá þessu er skýrt í Fiskifréttum í dag.

Skipstjórnarmenn forrita búnaðinn og velja með því fisktegundir og fiskstærðir inn í trollið en öllum öðrum fiski er sleppt út úr því. Tækið er algjör nýjung og á sér enga hliðstæðu.

 Búnaðurinn er eins konar trekt sem komið er fyrir framarlega í trollpoka og er opið 40 sinnum 40 sentimetrar. Fiskurinn fer þar í gegn og er um leið skannaður með rafeindabúnaði. Rauður ljósgeisli ákvarðar lengd hans og tekur skönnunin aðeins tíunda hluta úr sekúndu.

Nú er unnið að því að fullþróa getu búnaðarins til þess að greina sundur fisktegundir en auk rauða ljóssins er þá notað annað ljós. Umhverfisvænn búnaður

„Ávinningurinn af því að nota þennan búnað við veiðar er annars vegar sá að menn geta valið sér fisktegundir og fiskstærðir og hins vegar að unnt er að sleppa meðaflanum á veiðidýpi sem eykur lífslíkur þess fisks sem sleppt er. Hvað síðari þáttinn snertir gefast áður óþekktir möguleikar til að bæta umgengni okkar um sjávarauðlindina og stuðla að aukinni verðmætasköpun með því að leyfa ungfiskinum að vaxa í sjónum upp í nýtanlega stærð,” segir Sigmar Guðbjörnsson framkvæmdastjóri Stjörnu-Odda í samtali við Fiskifréttir.