sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýliðarnir verða fyrstir gjaldþrota

16. apríl 2012 kl. 09:02

Minni útgerðirnar verða fyrir mestum skaða af fisveiðifrumvörpunum, segir smábátaeigenda á Höfn.

„Þessar hugmyndir um að stórhækka veiðigjaldið upp úr öllu valdi gera það að verkum dæmið gengur ekki upp hjá flestum,“ segir Unnsteinn Þráinsson á Hornafirði um frumvörp ríkisstjórnarinnar um stjórn fiskveiða og veiðigjöld. „Sanngjarnt gjald er auðvitað sjálfsagt og eðlilegt, um það er ekki deilt.“

Rætt er við Unnstein á frétta- og upplýsingavef Hornafjarðar. Unnsteinn gerir út línu- og handfærabátinn Sigga Bessa SF 97. Veiðiréttur útgerðarinnar er um 110 þorskígildistonn. „Þeir sem hafa fjárfest í kvóta og skipum eru flestir mjög skuldugir. Sérfræðingar sem hafa tjáð sig um þessi mál virðast sammála um að minni útgerðirnar verði fyrir mestum skaða. Sumir sem ég hef talað við um þetta segja lítið annað að gera en að taka negluna úr og hoppa í land.“

Óhagræði

„Í fyrra leigði ég frá mér ýsukvóta og fékk í staðinn kvóta í þorski. Þetta var gert vegna þess að ýsa veiddist ekki á nálægum miðum, aftur á móti var ágætis þorskveiði. Slík viðskipti skapa mikið hagræði, en í frumvarpinu verður erfitt að skiptast á veiðirétti, nema með verulegum kostnaði og óhagræði. Ég er lítt hrifinn af pólitískum úthlutnum, þær eru og verða alltaf umdeildar. Flotinn ræður auðveldlega við að nýta auðlindina af skynsemi, það stoðar lítt að færa heimildir frá einu svæði til annars eins og manni sýnist vera lagt til.“

Mál málanna

„Já já, þetta er aðalmálið þessa dagana hjá okkur smábátaeigendum. Flestir tala um rothögg, verði þessi frumvörp að lögum. Mér finnst skrýtið að stjórnálamenn tali um að gera eigi nýliðun í greininni auðveldari. Nýliðarnir eru almennt skuldugir eftir að hafa fjárfest skipum og kvóta. Þessi frumvörp gera það að verkum að núverandi nýliðar verða fyrstir gjaldþrota,“ segir Unnsteinn Þráinsson.