laugardagur, 16. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýliðun makríls er svart box

Guðsteinn Bjarnason
29. ágúst 2019 kl. 10:00

Unnið á dekki Árna Friðrikssonar. MYND/Hafró

Anna Heiða Ólafsdóttir var leiðangursstjóri í sumaruppsjávarleiðangri Árna Friðrikssonar í júlí. Hún segir óvissu enn tengjast stofnmati makríls. Gögnin ná stutt aftur í tíma og lítið er vitað um nýliðunina ár hvert.

Um næstu mánaðamót koma þátttakendur í sumaruppsjávarleiðangrinum saman til að vinna úr gögnum leiðangursins. Á fundinum verður reiknuð makrílvísitala sem er ein af fimm gagnaröðum sem notuð verða í stofnmati Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) í september. Stofnmatið er grundvöllurinn á ráðgjöf ICES fyrir makrílvertíð næsta árs.

Anna Heiða Ólafsdóttir, leiðangursstjóri á Árna Friðrikssyni, segir leiðangurinn fyrirfram skipulagðan þannig öll tog allra skipanna séu sambærileg. Alls tóku sex skip frá fimm löndum þátt í leiðangrinum.

„Þetta eru stöðluð yfirborðstog. Allir eru með sams konar veiðarfæri, nota sömu vírlengd og við þurfum að beita veiðarfærinu eins. Um leið og vírinn er kominn út þá verðum við að byrja togið, og það má bara toga í hálftíma. Þá verður að hífa. Þetta gerum við á fyrirfram ákveðnum staðsetningu. Við megum ekki bara setja trollið í sjóinn þar sem við höldum að sé fiskur.“

Síðastliðið vor voru gerðar breytingar á reiknireglum sem liggja til grundvallar á stofnstærðarmati makríls. Í framhaldinu gaf ICES út breytt stofnmat, sem varð til þess að ráðið hækkaði ráðgjöf ársins 2019 upp í 770 þúsund tonn. Þetta er vel ríflega tvöföldun frá ráðgjöfinni sem gefin var út haustið áður, og nærri þriðjungi meira en ráðgjöf ársins 2018.

Líkanið og lífríkið
Anna segir þær breytingar sem gerðar voru á stofnmatinu síðastliðið vor byggðar á gögnum frá makrílmerkingum og snerust aðallega um breyttar aðferðir við að vinna úr gögnunum.

„Líkanið hegðar sér betur núna. En svo eru að koma ný gögn úr sumarleiðangrinum og ný gögn koma líka úr makríleggjaleiðangrinum í stofnmatinu í haust, sem við förum á þriggja ára fresti. Vandinn er sá að þegar gagnaraðirnar eru svona stuttar þá getur hvert ár sem bætist við haft mikil áhrif. Allt í einu getur til dæmis eggjaleiðangurinn farið að stjórna því hvað kemur út úr líkaninu. Hegðunin í líkaninu er svo óstöðug út af því hvað gagnaraðirnar eru stuttar og sumar þeirra  sýna að stofninn sé að stækka meðan aðrar gagnaraðir sýni að hann standi í stað eða minnki.

„Það er í rauninni grábölvað að hafa svona stuttar gagnaraðir og við getum ekkert lagað það bara með líkaninu, það þurfa að koma upplýsingar frá lífríkinu sjálfu, gögnin sem við setjum inn í líkanið. Útkoman verður aldrei betri en gögnin sem fara inn,“ segir hún.

„Það sem skiptir máli er að lífríkið er alltaf að breytast. Þetta er dýnamískt kerfi, og við viljum nýta það. Við viljum búa til peninga úr því eins og hægt er, en þá við þurfum rannsóknir ef við ætlum að gera það á skynsamlegan hátt, þannig að við séum að nýta það án þessa að eyðileggja fyrir okkur á næsta ári og þarnæsta.“

Einföld stærðfræði
Ekkert lát er á þeirri ofveiði sem árum saman hefur verið stunduð á makríl í Norður-Atlantshafi. Strandríkin hafa ekki getað náð samkomulagi um veiðarnar, þannig að hvert ríki fyrir sig tekur ákvarðanir um heildarveiði án samráðs við hin ríkin.

„Öll stjórnvöldin eru með yfirlýsingar um að þau veiði samkvæmt ráðgjöf ICES en ef þú leggur saman tölurnar þá eru þetta að meðaltali 140 prósent á ári,“ segir Anna Heiða.

„Þá er það bara einföld stærðfræði að reikna út að um leið og nýliðunin hættir að vera svona góð og svona mikið er veitt þá muni stofninn hrynja.“

Undanfarin 10 til 12 ár hafa nokkrir góðir árgangar komið í makríl, en vísindamennirnir vita í raun ekkert af hverju þeir koma.

„Þess vegna er maður óöruggur. Heldur þetta áfram, eða er að koma tímabil þar sem verður bara léleg nýliðun? Við bara vitum það ekki.“

Í makrílnum hefur mikið verið að koma inn undanfarinn áratug. Það hefur haldið uppi stofninum og vegur upp á móti því að of mikið er veitt miðavið ráðgjöf ICES. En aftur á móti er voða lítið vitað um samband hrygningarstofns og nýliðunnar. Það er svart box í rauninni.“

Engispretta hafsins?
Makríllinn hefur verið sagður alæta á fæðu og jafnvel svo stórtækur að hann hreinsi upp það sem aðrar tegundir nærast á. Fyrir vikið er hann stundum kallaður engispretta hafsins, hann æði um eins og engisprettufaraldur sem engu eirir.

Anna segir lítið vitað um þetta í raun, en áður en langt líður sé von á niðurstöðum úr viðamikilli rannsókn á fæðuhegðun makrílsins.

„Þetta er eitthvað sem allir eru að spá í og við bíðum mjög spennt eftir þessum niðurstöðum.“

Hún segir menn stundum kannski ganga of langt í fullyrðingum um græðgi makrílsins.

„Menn segja til dæmis að nú sé svo lítið af humar hér af því makríllinn sé búinn að éta allar humarlirfur. Þessu er bara hent svona fram.“

Hún segist jafnan svara því til að menn eigi ekki að kenna makrílnum um allt: „Við höfum ekki þekkinguna til að vera með fullyrðingar sem þessar.“