þriðjudagur, 26. október 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýr bátur til Raufarhafnar

25. október 2010 kl. 13:55

 Útgerðarfélagið Stekkjavík á Raufarhöfn fékk nú á dögunum afhentan nýjan Cleopatra bát frá Bátasmiðjunni Trefjum í Hafnarfirði. Að útgerðinni standa bræðurnir Ragnar og Hólmgrímur Jóhannssynir.

Nýi báturinn hefur hlotið nafnið Nanna Ósk II ÞH-133. Báturinn er 15 brúttótonn að stærð og verður aflamarkskerfinu. Nanna Ósk II er af gerðinni Cleopatra 38.  Fyrir á útgerðin eldri Cleopatra 33 bát með sama nafni sem gerður verður út áfram.

Aðalvél bátsins er 700 hestafla af gerðinni Yanmar tengd ZF gír. Um borð eru JRC siglingartæki frá Sónar ehf. Báturinn er með vökvadrifinni hliðarskrúfu sem tengd er sjálfstýringu hans. Hann er útbúinn til netaveiða og línuveiða með beitningatrekt.  Allur veiðibúnaður er frá Beiti.

Rými er fyrir tólf 660 lítra kör í lest.  Í bátnum er innangeng upphituð stakkageymsla.  Borðsalur er í brúnni auk stóla fyrir skipstjóra og háseta.  Svefnpláss er fyrir fjóra í lúkar auk eldunaraðstöðu með eldavél, örbylgjuofn og ísskáp.