mánudagur, 17. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýr eldisfiskur fyrir sælkera

10. maí 2010 kl. 15:30

Tiltölulega lítt þekkt fisktegund sem er upprunnin frá Amazon-svæðinu í Suður-Ameríku er nú komin í sölu á alþjóðlegum mörkuðum. Á fiskurinn að höfða til sælkera.

Hér er um að ræða vatnafisk sem heitir á íslensku pæma eða risaari (lat. Arapaima gigas). Þessi fiskur getur náð 2 metrum að lengd og orðið allt að 40 kíló að þyngd. Hann er vinsæll í Perú og þar til nýlega var hann ófáanlegur til útflutnings þar sem hann var á lista yfir tegundir í útrýmingarhættu.

Tilraunir til eldis höfðu heldur ekki borið mikinn árangur. Nú hefur eldisfyrirtæki í Perú hins vegar náð tökum á því að framleiða seiði af pæmu og eldi á henni er hafið.

Pæman var kynnt á sjávarútvegssýningunni í Boston í vetur og á sýningu í Brussel á dögunum og fékk góðar viðtökur. Þykir pæman hið mesta lostæti og er líkt við svartþorsk, vartara eða túnfisk. Matgæðingum þykir líka spennandi að bragða á fiski frá framandi slóðum.