mánudagur, 14. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýr fóðurprammi til Arctic Fish

Guðjón Guðmundsson
14. febrúar 2019 kl. 15:49

Fóðurpramminn kemur frá Akva í Noregi. MYND/AÐSEND

Tekur 450 tonn af fóðri


Fiskeldisfyrirtækið Arctic Fish fékk afhentan nýjan fóðurpramma um síðustu helgi sem smíðaður er af norsku skipasmíðastöðinni Akva. Fóðurpramminn er engin smásmíði. Hann tekur 450 tonn af fóðri og er búinn nýjustu tækni og búnaði. Skipið hefur fengið heitið Mýrarfell eftir samnefndu felli í Dýrafirði.

Mýrarfell er þó meira en eingöngu fóðurprammi því í honum er stjórnstöð og skrifstofurými. Starfsmannaaðstaða er vönduð og í prammanum er fullbúið eldhús, baðherbergi og verkstæði.

Mýrarfelli er ætlað að sinna tólf sjókvíum við Eyrarhlíð í Dýrafirði. Ný gerð fóðurkerfis er í prammanum sem byggir á myndavélum sem senda þráðlaust myndir af fóðurgjöf og yfirliti yfir kvíarnar.