laugardagur, 23. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýr Herjólfur ódýrari en áætlað var

6. desember 2019 kl. 09:15

Nýr Herjólfur.

Kostnaður ríflega 5,3 milljarðar króna – smíðakostnaður þar af 4,5 milljarðar.

Heildarkostnaður við ferjuskipti í Vestmannaeyjum nemur ríflega 5,3 milljörðum króna með rafvæðingu Herjólfs. Þar af er smíðakostnaður rúmlega 4,5 milljarðar króna. Áætlaður kostnaður við ferjuskiptin var 5,6 milljarðar króna. Heildarkostnaður er því lægri en upphaflega var áætlað.

Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Vegagerðarinnar.

Þar er rifjað upp að Alþingi heimilaði um mitt ár 2016 að bjóða út smíði ferju. Áætlaður kostnaður var 4,8 milljarðar króna á verðlagi ársins 2016. Síðar, eftir að smíðin var hafin, var ákveðið að heimila fulla rafvæðingu sem áætlað var að myndi kosta 800 milljónir króna. Alls var því áætlaður kostnaður upp á 5,6 milljarða króna. Heildarkostnaður við ferjuskiptin nemur ríflega 5,3 milljörðum króna og er því undir því sem upphafalega var sett fram sem heildarkostnaður.

„Málinu er þó ekki lokið því líkt og í annarri skipasmíði er verkinu ekki að fullu lokið fyrr en ári eftir afhendingu þegar nýr Herjólfur fer í slipp og lokaúttekt. Þá ættu öll mál að vera uppgerð og búið að reyna skipið og lagfæra og bæta það sem kann að hafa komið uppá við siglingar skipsins og teljast hluti af smíði ferjunnar,“ segir í frétt Vegagerðarinnar.