þriðjudagur, 10. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýr hugbúnaður stuðlar að aukinni arðsemi veiða og vinnslu

24. október 2008 kl. 12:40

Nú er tilbúin frumgerð að hugbúnaði fyrir sjávarútvegsfyrirtæki sem leggur til hagkvæmasta fyrirkomulagið í veiðum og vinnslu á fiski, getur aukið virði sjávarfangs og um leið stuðlað að auknum hagnaði fyrirtækja.

Frá þessu er skýrt í nýjustu Fiskifréttum.

Hvernig er unnt að stjórna veiðum og vinnslu þannig að sem mest hagkvæmni og arðsemi náist út úr starfseminni í heild?

Þetta er daglegt viðfangsefni þeirra sem stjórna sjávarútvegsfyrirtækjum. Mörg þessara fyrirtækja hafa mikla reynslu og þekkingu á þessu sviði og innan þeirra hafa safnast upp miklar upplýsingar.

Bráðlega verður tekinn í notkun íslenskur hugbúnaður sem auðveldar stjórnendum fyrirtækjanna að tengja saman allar þessar upplýsingar, svo sem úr rafrænum afladagbókum veiðiskipanna, mælingum úr móttöku og gögnum úr upplýsingakerfum um vinnslu og markað.

Þannig er unnt að greina hvaða þættir hafi áhrif á virði sjávarfangs og afkomu fiskveiða og fiskvinnslu og búa til hagkvæmasta fyrirkomulagið að veiðum og ráðstöfun afla.

Hugbúnaðurinn nefnist FisHmark en gerð hans er samstarfsverkefni Matís ohf., sjávarútvegsfyrirtækjanna Samherja, Vísis, FISK Seafood og Guðmundar Runólfssonar hf. og hugbúnaðarfyrirtækjanna Trackwell, Maritech og AGR.

Áætlað er að um næstu áramót verði byrjað að innleiða frumgerð hugbúnaðarins í viðkomandi sjávarútvegsfyrirtæki og hálfu ári síðar ætti fullmótaður búnaður að liggja fyrir.

Nánar er fjallað um málið í nýjustu Fiskifréttum.