þriðjudagur, 18. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýr Kristján HF getur sótt í verri veðrum

17. september 2018 kl. 10:22

Atli Freyr Kristjánsson, skipstjóri á Kristjáni HF.

Mun meiri gæði á afurðum


Stóra breytingin sem fylgir Kristjáni HF yngri frá fyrri samnefndum bát er meðferð hráefnisins. Báturinn er sá fyrsti sem búinn er jafnt blæði- og kælisnigli og segir Atli Freyr Kristjánsson, annar tveggja skipstjóra nýja Cleopatra 46B bátsins sem Fiskvinnslan Kambur ehf. í Hafnarfirði fékk afthentan í sumar, að hráefnið gerist ekki betra. Skipstjóri á móti Atla Frey er Sverrir Þór Jónsson og var hann á veiðum þegar náðist í Atla Frey í róðrarfríi.

gugu@fiskifrettir.is

Nýji báturinn heitir Kristján HF 100. Hann er 14 metrar á lengd og mælist 30 brúttótonn.  Báturinn leysir af hólmi eldri Cleopatra bát með sama nafni. Rými er fyrir allt að 72 460 lítra kör í lest. Millidekk er lokað með aðgreindu dráttarrými.  Í bátnum er upphituð stakkageymsla fyrir 6 manns.  Svefnpláss er fyrir sex í lúkar í 4 aðskildum klefum.

Fullbúið eldhús er um borð með öllum nauðsynlegum búnaði þar með talið eldavél, bakarofni, örbylgjuofni, ísskáp og uppþvottavél. Báturinn er útbúinn til lengri útiveru ef þarf og aðbúnaður um borð fyrir áhöfn er í takt við það.

Fyrsti túrinn var farinn í lok júní og báturinn hefur reynst afskaplega vel, að sögn Atla Freys. Róið er frá Stöðvarfirði og þar á Kambur hús með góðri aðstöðu fyrir áhafnirnar sem eru tvær. Fjórir eru í hvorri áhöfn og róið er í tvær vikur og síðan er tveggja vikna frí og fara menn þá suður til sinna heimahaga.

„Stóri munurinn er sá að nýi báturinn býður upp á meiri sókn. Báturinn er stærri og við getum verið að í verri veðrum sem skilar sér í fleiri róðrum í hverju úthaldi. Svo er einnig gríðarlega mikill munur á gæðunum á hráefninu. Við erum með kæli- og blóðgunarkerfi frá Skaganum 3X með tveimur sniglum. Í eldri bátnum blóðguðum við beint í krapa en núna blóðgum við inn í svokallaðan blæðisnigil þar sem hitastigið er hið sama og í sjónum þaðan sem fiskurinn kemur. Í framhaldi af því fer fiskurinn í kælisnigilinn þar sem er 0° heitur sjór. Loks fer hann í krapa niður í lest. Þetta kerfi er mörgum gæðaskrefum fyrir ofan eldra kerfið. Okkur er sagt af þeim í vinnslunni fyrir sunnan að gríðarlega mikill munur sé á gæðunum,“ segir Atli Freyr.

Landað síðdegis – unnið að morgni

Farið er í dagróðra og landað yfirleitt á milli klukkan fjögur og fimm síðdegis. Aflinn er fluttur suður á bílum og er kominn þangað í vinnsluna árla næsta morguns. Hráefnið sé því eins gott og það geti orðið þegar það er unnið. Enginn annar smábátur er með kælikerfi eins og Kristján HF. Nokkrir smábátar eru þó með einn blæðisnigil.

Atli Freyr segir að kæliferlið frá því fiskurinn kemur um borð og fer ofan í lest taki á milli 40-45 mínútur. Áður var þetta gert á nokkrum sekúndum. Ferlið á samt ekki tefja menn frá veiðunum sjálfum. Kerfið á að geta afkastað 1.200-1300 kg á klukkustund.

Veiðarnar hafa gengið mjög vel. Frá enduðum júní og út ágúst veiddust um 210 tonn. Veiðisvæðið er stórt og hefur verið sótt jafnvel allt að 40-45 mílur frá landi. Aðeins hefur þó dregið úr veiðinni undanfarnar tvær vikur og ástæðan er líklega mikið æti. Þorskurinn er í makríl og síldarveislu þessa dagana og lítur því síður við krókunum. Veitt er með 18 þúsund krókum en til stendur að fjölga þeim upp í 20 þúsund.

„Það er líka mjög mikill munur á aðbúnaðinum um borð. Hver maður er með sinn sérklefa með sturtu, sjónvarpi og eiginlega öllu til alls. Það eru auðvitað miklar tarnir sem menn þurfa að standa en það er þvílíkur munur að hafa þennan góða aðbúnað,“ segir Atli Freyr.

Hann segir bátinn láta mjög vel í sjó en þeir hafi reyndar ekki lent í illviðri ennþá. En báturinn gefi góð fyrirheit.