sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýr milljarðasamningur í Austur-Rússlandi

27. júlí 2018 kl. 09:15

Ingólfur Árnason og Sergey Borisovich Tarusov takast í hendur að lokinni undirritun samningsins. MYND/AÐSEND

Skaginn 3X hefur gert milljarðasamning við Collective Farm Fishery by V.I. Lenin um heildarlausn í nýja verksmiðju á Kamtchatka-skaga í Austur-Rússlandi.

Skaginn 3X hefur í samstarfi við Frost gert milljarðasamning um búnað í nýja verksmiðju sem verið er að byggja í Petropavlosk á Kamtchatka í Austur-Rússlandi. Samningurinn var undirritaður við hátíðlega athöfn í Íslenska sendiráðinu í Moskvu þann 25. júlí.

Að því er fram kemur í tilkynningu frá Skaganum 3X verður verksmiðjan  búin heildarlausn til að stærðarflokka, vinna og frysta tegundir eins og Alaska ufsa, nokkrar tegundir villts lax, Kyrrahafs þorsk, uppsjávarfisk og smokkfisk. Það er rússneska fyrirtækið Collective Farm Fishery by V.I. Lenin sem er að láta reisa þessa nýju verksmiðju.

Kælismiðjan Frost mun sjá um allt kælikerfið í verksmiðjunni. Samlegðaráhrif samvinnu Skagans 3X og Frost kristallast í fyrirtækinu Knarr Rus sem er endursöluaðili fyrir íslensk tæknifyrirtæki inn á rússneskan markað. Kælikerfið mun verða af fullkomnustu gerð og standast allar nútíma kröfur um orkunýtingu og umhverfismál.

Verksmiðjan verður meðal annars búin sjálfvirkum plötufrystum sem Skaginn 3X er þekktur fyrir, að auki mun fyrirtækið afhenda nýja tegund sjálfvirkra frysta til að frysta afurðir sem eru ætlaðar í sögunarverksmiðjur og þurfa því að standast stífar kröfur um lögun og fleiri þætti. Þessu til viðbótar verður verksmiðjan búin lausfrystum sem geta tekið margskonar afurðir, allt frá smáum smokkfisk og upp í heilan lax. Í heildina er verksmiðjan hönnuð til að geta fryst yfir 500 tonn á sólarhring með möguleika á aukningu seinna.

„Við erum stolt af því að innleiða íslenska tækni í nýju verksmiðjuna,“ sagði forstjóri Lenin við undirritun samningsins. “Með þekkingu og venjum um vinnslu í Austur Rússlandi í bland við framleiðslutækni frá Íslandi verður til frammúrskarandi leið til að auka nýtingu og verðmæti auðlindarinnar.“

Ingólfur Árnason framkvæmdastjóri Skagans 3X bindur einnig miklar vonir við nýju verksmiðjuna: „Það er jákvætt fyrir okkur að taka þátt í að koma vinnslu upp á annað og hærra stig þarna með heilsteyptri kerfislausn. En aðal atriðið er að viðhalda gæðum fisks og auka þau verðmæti sem eru sköpuð“ sagði Ingólfur Árnason.

Eins og greint var frá í Fiskifréttum í febrúar viku skrifuðu Skaginn 3X í samstarfi við Frost og Rafeyri undir samning um uppsetningu á uppsjávarvinnslu fyrir rússneska útgerðar- og vinnslufyrirtækið Gidostroy á Kúril-eyjum með afkastagetu upp á 900 tonn á sólarhring.

Í tilkynningunni frá Skaganum segir að margt sameini fyrirtækin tvö: „Þau eru bæði með sínar aðal starfsstöðvar í sjávarbyggð og eru staðsettar á sitthvorum skaganum, annarsvegar Kamtchatka skaga og hins vegar Skipaskaga. Skagarnir eru hins vegar sitthvorum megin á hnettinum og 12 tímabelti á milli.“