föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýr Sighvatur GK kemur frá Póllandi

22. júní 2018 kl. 06:00

Vísir í Grindavík kaupir Óla Gísla GK ásamt aflaheimildum

Endurnýjun stendur yfir á fiskiskipaflota Vísis hf. í Grindavík. Í dag er von á endurbyggðu skipi frá skipasmíðastöðinni Alkor í Póllandi sem leysir Sighvat GK af hólmi og á svipuðum tíma á næsta ári kemur frá sömu skipasmíðastöð nýsmíði sem leysir Pál Jónsson GK af hólmi. Þá hefur Vísir hf. keypt krókaaflamarksbátinn Óla Gísla GK ásamt rúmum 500 tonna aflaheimildum.

gugu@fiskifrettir.is

Á síðasta ári sameinaðist Vísir ennfremur útgerðarfyrirtækinu Marver í Grindavík sem gerði út bátinn Daðey GK. Með fylgdu 1.100 tonna veiðiheimildir. Stefnan er því að gera út tvo báta í krókaaflamarkskerfinu og fimm í stóra kerfinu. Í samningnum um nýsmíðina á næsta ári eru jafnframt ákvæði um annað samskonar skip sem kæmi til landsins ári síðar. Það skip myndi leysa Kristínu GK af hólmi.

Í raun nýsmíði

„Það eina sem þá væri eftir við endurnýjun flotans væri að Jóhanna færi í allsherjar klössun sem lyki á árinu 2021 en eins og menn muna kom Fjölnir GK endurbyggður til landsins fyrir tæpum tveimur árum,“ segir Pétur H. Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis.

Pétur segir nýjan Sighvat GK í raun vera nýsmíði. Allt er nýtt í honum nema 2/3 hlutar af stálinu. Hann segir að kostnaður við endurbygginguna nemi þó ekki nema helmingi af hreinni nýsmíði. Ennfremur hafi verið gerður mjög hagstæður samningur við skipasmíðastöðina um nýsmíði á nýjum Páli Jónssyni GK.

„Við tökum svo við Óla Gísla GK á næstu dögum og þegar við förum svo af stað í haust verðum við með fimm báta í stóra kerfinu og tvo í krókaaflamerkinu. Óli Gísla verður gerður áfram út frá Suðurnesjum en verður líklega fyrir norðan og austan framan af hausti eins og Daðey GK.“

Þessu til viðbótar hefur Vísir endurnýjað fiskvinnslu sína í samstarfi við Marel sem nú er ein hátæknivæddasta fiskiðja landsins.

Söluandvirði af Landvís Kanada

Pétur segir að fyrirtækið nýti söluandvirði dótturfélags Vísis, Landvís Kanada, sem hélt utan um hlut Vísis í kanadíska útgerðarfyrirtækinu Ocean Choice International (OCI), til þessara fjárfestinga. Ráðist var í kaupin á kanadíska félaginu árið 2007 með það fyrir augum að skapa nýja möguleika í markaðsstarfi. Pétur segir að Vísir hafi fengið allt sitt til baka sem lagt hafi verið í kanadíska fyrirtækið á sínum tíma og með eðlilegri ávöxtun. Hann vill ekki gefa upp söluandvirðið en ætla má að um umtalsverðar upphæðir sé að ræða miðað við þær fjárfestingar sem fyrirtækið hefur ráðist í.

Skipafloti Vísis var orðinn hálfrar aldar gamall. Fyrirtækið mótaði sér fyrir þremur árum stefnu um endurnýjun flotans, endurnýjun á fiskvinnslunni og er með stórhuga áform um þróun í vinnslu hliðarafurða í samstarfi við Codland, Junka á Spáni, Þorbjörn, HB Granda og Samherja,  eins og t.a.m. kollageni úr roði. Stefnt er að því að kollagen verksmiðjan hefji starfsemi á næsta ári  og geti framleitt úr um 4 þúsund tonnum af roði.

„Við erum líka með áætlanir um að styrkja hráefnisstöðu okkar og eru kaupin á Óla Gísla hluti af því. Markaðsmálin eru stöðugt í endurskoðun sem og að standast auknar kröfur í umhverfis-, gæða- og öryggismálum og hugsum við til næstu tíu ára í því samhengi. Við endurnýjum eitt skip á ári yfir fimm ára tímabil. Annað skipið, nýr Sighvatur er núna kominn, og þriðja skipið kemur á næsta ári. Við höfum unnið með Marel að stafrænni þróun fiskvinnslunnar og stefnum að því að taka róbóta í okkar þjónustu. Við erum því enn að keyra á þeirri stefnu sem við mörkuðum okkur og það verður bara að koma í ljós hvort okkur endist afl til að klára þessi mál eða hvort veiðigjöldin verði sá veggur sem við óttumst og dragi úr okkur allan mátt.“

Þróunarstarf fyrst skorið niður

„Til þess að viðhalda sér þurfa bolfiskvinnslufyrirtæki eins og okkar eina af hverjum fjórum krónum fyrir sig, þ.e. upp í afborganir, vexti, nýfjárfestingu, þróun og fleira. Hinar þrjár fara í reksturinn. EBITDA þarf með öðrum orðum að vera 25% í svona fjárfestingarfrekri grein. Þetta hlutfall er núna 20% fyrir veiðileyfagjöldin og þau taka upp undir helming af henni . Það sjá allir að ekki er hægt að reka svona fyrirtæki á 10%-15% EBITDU. Það koðnar niður hægt og rólega. Þetta held ég að allir viti en það passar bara ekki inn í umræðuna að nefna það,“ segir Pétur.

Hann segir að meðan veiðileyfagjöldin séu ekki leiðrétt sé það fyrsta sem fyrirtækin grípi til sé að skera niður þróunarstarf og aðrar rannsóknir, síðan nýfjárfestinguna og svo koll af kolli. Fram að þessu hafi menn verið uppfullir sjálfstrausts og þannig haldið stefnunni og drifið sig af stað í öll þessi verkefni í trausti þess að lagfæringar verði gerðar á veiðileyfagjöldunum.

„Verði skilaboðin í haust þau að veiðigjöldin verði óbreytt þá eigum við eftir sjá eitthvað gerast sem við höfum ekki séð áður, og kjósum ekkert endilega að sjá“ segir Pétur.

Óráðið með túnfiskveiðar

Vísir hefur lagt inn umsókn til að nýta túnfiskveiðikvóta sem fellur Íslendingum í skaut. Fyrirtækið stundaði þessar veiðar á Jóhönnu Gísladóttur árin 2014, 2015 og 2016 með ágætum árangri framan af. Túnfiskveiðar voru ekki stundaðar af íslenskum skipum í fyrra. Pétur segir að menn séu enn að velta fyrir sér þessum málum, þ.e.a.s. hvort yfirleitt verði farið á túnfisk.

„Við erum aftur komnir í þá stöðu að hafa ekki efni á því að taka áhættu. Við reynum að halda áætlun en aftur ræðst það að framvindu mála hvort við þurfum að skera niður. Það verður þá fyrst gert þar sem áhættan er mest og það verður að segjast um túnfiskveiðarnar að þær hafa ekki verið jafn ábatasamar og áður var. Við sluppum fyrir horn framan af en það er ekki víst að svo verði áfram. Kvótinn er núna umtalsvert stærri en hann hefur ekki verið vandamál heldur veiðarnar. Það þarf að hafa borð fyrir báru til að taka þátt í þessu,“ segir Pétur.