þriðjudagur, 28. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýr útbúnaður humarvörpu gefur góða raun

14. maí 2010 kl. 09:03

Rannsóknaleiðangur stendur yfir í samstarfi Skinneyjar-Þinganess, Ísnets Hornafirði og Hafrannsóknastofnunarinnar. Rannsóknin er framhald samstarfsverkefnis árið 2009 þar sem prófað var að nota stærri möskva í yfirbyrði humarvörpu en almennt tíðkast við humarveiðar.

Legggluggi með 200 mm möskvastærð hefur um langa hríð verið lögboðinn við veiðar á humri í botnvörpu og þjónar þeim tilgangi að hleypa út smáfiski. Rannsóknirnar leiddu í ljós að með því að nota stórriðið yfirbyrði má ná enn betri árangri í að hleypa út smáfiski, jafnframt því sem tilraunavarpan veiddi hlutfallslega minna af smáhumri.

Vísbendingar eru einnig í þá átt að olíunotkun hafi minnkað. Vonast er til að þessar breytingarnar auki hagkvæmni við humarveiðar. Humarbátum var því gefinn kostur á að nota umræddan umbúnað við endurskoðun fiskveiðireglugerða nú í vetur, þrátt fyrir að lítil reynsla sé komin á þetta fyrirkomulag. Mikilvægt er að framkvæma frekari samanburðarannsóknir til að leggja betur mat á kosti og galla þessara breytinga.

Áframhaldandi rannsóknir í vor verða af sama meiði, þ.e. prófuð verða stórriðin yfirbyrði með mismunandi sniði í humarvörpu og borinn saman afli úr mismunandi vörpum sem dregnar eru samsíða.

Í fyrra var farið með humarbátnum Skinney SF-20, en í ár, þriðjudaginn 11. maí var farið með systurskipinu Þóri SF-77. Bæði skipin eru nýsmíði og útbúin til veiða með tveimur vörpum. Leiðangursstjóri er Ólafur Arnar Ingólfsson.

Frá þessu er skýrt á vef Hafrannsóknastofnunarinnar.