þriðjudagur, 24. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýr vinnslubúnaður lofar góðu

Guðjón Guðmundsson
29. október 2020 kl. 07:00

Skinney SF 20 er glæsilegt skip eftir breytingarnar. Mynd/Jón Steinar Sæmundsson

Vel fiskast á lengri og betur útbúinni Skinney SF.

Vel hefur fiskast á Skinney SF 20 að undanförnu eins og á mörgum öðrum togskipum þessa dagana. Skipið landaði í byrjun vikunnar um 70 tonnum af blönduðum afla. Fiskurinn er slægður um borð og sjókældur sem eykur hagræði og skilar betra hráefni í land.

Þorsteinn Gunnarsson skipstjóri segir gott fiskirí hafa verið undanfarið og tíðarfarið líka gott. 

„Það hafa komið góðir túrar á milli og við komist upp í það að vera með eitthvað um 140 tonn í róðri upp úr sjó. Við erum ekki að landa því öllu því við slægjum allt um borð. Við höfum komist upp í 120 tonn af slægðu í róðri þannig að ekki er hægt að kvarta mikið,“ segir Þorsteinn. 

Samsetning aflans hefur að mestu leyti verið þorskur en aðeins af ýsu og ufsa með. Fiskurinn hefur verið að talsvert mismunandi stærð en stór fiskur hafði fengist norður undir Héraðsflóa innan um síldina. Stærðin fisksins hafi verið misjöfn eftir svæðum.

Flokkað í tegundir og stærðir

„Það er ennþá síld þarna norður frá, í Seyðisfjarðardýpi og þar í kring. Þar hefur annað slagið gefið sig vel í bolfiski. Það hefur líka verið veiði hérna sunnar á þessari hefðbundnu togslóð,“ segir Þorsteinn.

Skinney SF var smíðuð í Tævan árið 2009 og var lengd um 10 metra í Póllandi árið 2019. Hún er með sams konar búnaði og nýsmíðarnar Steinnunn SF og Þinganes SF. Þetta eru tæki sem stærðarflokka aflann og kælingin fer fram með kælisjó og er íslaus. Þórir SF er ennfremur með búnaði af þessu tagi sem Fiskifréttir fjölluðu ítarlega um á sínum tíma.

„Fiskurinn er flokkaður uppi á dekki í tegundir og stærðir, hann er kældur og fer síðan niður í lest sem við höldum í mínus 2 gráðum. Það er mikil hagræðing af því að þurfa ekki að vera með ís og hráefnið sem við skilum í land á að vera betra,“ segir Þorsteinn.

Rólegt yfir í humrinum

Búnaðurinn var settur upp í Skinney þegar hún kom úr lengingunni í Póllandi í fyrra en styttra er síðan hann var tekinn í notkun. Þorsteinn segir reynsluna því ekki langa en útkoman lofi góðu. Búnaðurinn var þó í notkun þegar skipið var á humarveiðum síðastliðið sumar og þurfti þá ekki að vera með ís. Flokkararnir koma frá Völku en kælibúnaðurinn frá Kælingu. Um smíðavinnu og uppsetningu sá Micro í Garðabæ.

Þorsteinn hefur verið í eitt ár á Skinney en var áður á Hvanney SF sem nú er í eigu Nesfisks ásamt Steinunni SF. Skinney-Þinganes seldi frá sér þessi eldri skip þegar nýju skipin tvö komu frá VARD í Noregi í fyrra.

Þorsteinn segir Skinney afar gott skip eftir breytingarnar. „Ég var reyndar ekki á skipinu fyrir breytingar en sjóhæfni þess núna er mikil.“

Humarvertíðin síðastliðið sumar stóð stutt yfir enda kvótinn lítill.

„Við byrjuðum hérna fyrir vestan; í Hornafjarðar- og Breiðamerkurdýpi. Það gekk ágætlega en svo var bara rólegt yfir þessu. Við náðum að skrapa upp nokkurn veginn það sem við áttum að veiða en það var aldrei neinn kraftur í veiðunum. Þetta voru einhver 13-14 tonn í heildina sem við veiddum. Ég var búinn að vera í pásu frá humri í um fimmtán ár en hafði áður verið á einum sautján humarvertíðum svo maður kannast aðeins við þetta. Það gætu verið fleiri en ein ástæða fyrir ástandinu á humarstofninum núna. Ég hef svo sem ekkert fyrir mér í því en bent hefur verið á þann möguleika að makríllinn hafi hreinlega hreinsað upp lirfurnar. Makríllinn er gríðaröflug ryksuga. Hugsanlega nær humarinn sér á strik aftur ef makríllinn hverfur af Íslandsmiðum.“