sunnudagur, 25. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýsmíðað tonn kostar milljón

Guðsteinn Bjarnason
10. febrúar 2019 kl. 07:00

Íslenskir útgerðarmenn fluttu inn 62 skip á níu árum. Alls varði útgerðin 75 milljörðum til skipakaupa á árunum 2010 til 2018, að því er fram kemur í tölum Hagstofu Íslands.

Útgerðin hefur verið dugleg að nýta sér hagstæð rekstrarskilyrði sterku krónunnar í kjölfar hrunsins til að fjárfesta, meðal annars í nýjum og glæsilegum fiskiskipum.

Á árunum 2010 til 2018 voru 62 fiskiskip keypt til landsins fyrir samtals 75 milljarða króna, að því er fram kemur í tölum Hagstofunnar.

Samtals eru þessi 62 fiskiskip 76 þúsund tonn að stærð, þannig að hvert tonn hefur kostað rétt rúmlega milljón krónur að meðaltali.

Flest skipin voru keypt árin 2015 og 2017, alls 11 skip fyrir 14 milljarða árið 2015 og 14 skip fyrir 22 milljarða árið 2017. Flest árin hafa skipin þó verið fjögur eða fimm, sem keypt hafa verið til landsins, og verðmæti þeirra á bilinu tveir til sex milljarðar.

Metárið 2017 kom meðal annars til landsins Sólbergið ÓF, 3.700 tonna skuttogara Ramma hf. á Ólafsfirði, sem smíðaður var í Tyrklandi.

Þetta ár fékk HB Grandi einnig systurskipin Engey, Viðey og Akurey en öll eru þessi skip eru ísfisktogarar, smíðaðir í Tyrklandi og 1.800 brúttólestir hver að stærð.

Þá fékk Samherji einnig afhent frá Tyrklandi bæði Björgólf EA og Björgu EA, og FISK Seafood á Sauðárkróki fékk sömuleiðis frá Tyrklandi togarann Drangey SK.

Á árinu 2017 fékk Eskja á Eskifirði einnig nýjan Jón Kjartansson SU-111, 2.200 tonna uppsjávarskip sem smíðað var 2003 en keypt til Íslands frá Lerwick í Skotlandi.

Af þessum 62 fiskiskipum sem keypt voru árið 2017 voru 55 keypt frá Evrópu, fimm frá Ameríku og tvö frá Asíu.