þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýtt blómaskeið þorsks í Barentshafi

7. október 2009 kl. 12:23

Nýtt blómaskeið virðist vera að hefjast hjá þorskstofninum í Barentshafi eftir að hann komst í sögulega lægð á níunda áratug síðustu aldar, að því er segir á vef norsku hafrannsóknastofnunarinnar.

Nokkrar ástæður eru þessum viðsnúningi. Aðhaldssamar ákvarðanir í kvótamálum eru sagðar vega þyngst. Auk þess er nefnt að tekist hafi að draga verulega úr ólöglegum veiðum í Barentshafi eftir að settar voru samræmdar hafnarreglur í flestum Evrópulöndum árið 2007 sem torvelda að unnt sé að landa fiski úr slíkum veiðum.

Þá hafa loftslagsbreytingarnar á liðnum árum einnig haft jákvæð áhrif á vöxt og viðgang þorskstofnsins í Barentshafi. Þær hafa leitt til þess að útbreiðslusvæði þorsksins hefur stækkað og aðgangur hans að fæðu aukist. Þótt sjávarhiti hafi ekki hækkað um nema eina gráðu frá köldu árunum hefur þessi breyting gert þorskinum kleift að sækja meira til norðurs og austurs í hafinu.

Stærstur varð þorskstofninn á miðjum fimmta áratugnum þegar samanlögð þyngd veiðistofnsins (3ja ára fisks og eldri) nam fjórum milljónum tonna. Á 9. áratugnum hrapaði hann svo niður í eina milljón tonna. Síðan hefur gengið á ýmsu. Árið 1993 mældist stofninn 2,4 milljónir tonna en var kominn niður í 1,1 milljón árið 2000.

Frá þessum tíma hefur stofninn verið í vexti og er nú áætlaður 2,5 milljónir tonna. Með hliðsjón af þessari aukningu hafa vísindamenn ráðlagt að veiðin á næsta ári miðist við 578.000 tonn sem er mesti þorskkvóti í meira en áratug.

Á vef norsku hafrannsóknastofnunarinnar segir að búist sé við lítilsháttar stækkun þorskstofnsins frá því sem nú er en síðan gæti komið einhver afturkippur. Stofninn muni þó halda áfram að vera stór.