mánudagur, 22. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýtt rammasamkomulag um veiðar og vernd loðnustofnsins

11. desember 2018 kl. 09:40

Venus NS, að loðnuveiðum. (Mynd: Ólafur Óskar Stefánsson)

Utanríkisráðherra lagði í gær fram nýtt rammasamkomulag á milli Grænlands/Danmerkur, Íslands og Noregs um verndun loðnustofnsins og stjórnun veiða úr honum.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, hefur lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu um staðfestingu rammasamkomulags milli Grænlands/Danmerkur, Íslands og Noregs um verndun loðnustofnsins og stjórnun veiða úr honum.

Í greinargerð segir að um fullgildingu á rammasamkomulagi er að ræða sem undirritað var 21. júní í sumar. Samningaviðræður milli þeirra ríkja sem eiga hagsmuna að gæta vegna veiða úr loðnustofninum og skilgreind eru sem strandríki hófust árið 2016. Samkomulagið lítur að skiptingu leyfilegs hámarksafla og fyrirkomulagi kvótaúthlutunar.

Forsagan

Forsaga málsins er sú að fulltrúar Grænlands óskuðu árið 2015 eftir því að svokölluð lífsferilsskýrsla yrði unnin um loðnustofninn. Skýrslan var kynnt ríkjunum vorið 2016. Í henni kom meðal annars fram að umtalsverðar breytingar hefðu orðið á lífsferli loðnu miðað við niðurstöðu skýrslu frá árinu 1986. Í fyrri lífsferilsskýrslu var talið að loðna væri um 20% af lífsferli sínum í grænlenskri lögsögu en niðurstaða nýrrar skýrslu gaf til kynna að loðnan væri 75%–95% eftir árabilum af sínum lífsferli í grænlenskri lögsögu. Auk þess kom fram að loðnan væri ekki í lögsögu Jan Mayen.

Í kjölfar skýrslunnar settu fulltrúar Grænlands fram þá kröfu að hlutdeild Grænlands í heildaraflanum yrði yfir helmingur heildaraflans á vertíð. Jafnframt óskuðu grænlensk yfirvöld eftir auknum aðgangi að íslenskri lögsögu til loðnuveiða sinna skipa. Fulltrúar Íslands töldu þessar kröfur óraunhæfar.

Þar sem ný lífsferilsskýrsla sýndi að loðna væri ekki í lögsögu Jan Mayen voru uppi sjónarmið um að Noregur ætti ekki rétt til hlutdeildar í loðnuveiðum ríkjanna. Afstaða íslenskra yfirvalda var að Noregur yrði áfram samningsaðili enda gæti hegðun og göngumynstur loðnu breyst í framtíðinni og hún gengið aftur í lögsögu Jan Mayen. Loðnuveiðar á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen hafa á undanförnum árum farið fram á grundvelli þríhliða samnings milli Íslands, Grænlands/Danmerkur og Noregs, sem gerður var í Reykjavík árið 2003 og tvíhliða samninga milli landanna sem gerðir voru í Reykjavík sama ár.

Ísland missir eitt prósent

Í nýju rammasamkomulagi milli Grænlands/Danmerkur, Íslands og Noregs um verndun loðnustofnsins og stjórnun veiða úr honum felst að hlutur Íslands í heildaraflanum lækkar úr 81% í 80% en hlutur Noregs minnkar úr 8% í 5% frá fyrri samningi. Hlutur Grænlands hækkar því úr 11% í 15%.

Samkomulagið staðfestir með formlegum hætti að ákvörðun heildarafla á hverri vertíð byggist á langtíma nýtingarstefnu, en Alþjóða hafrannsóknarráðið (ICES) hefur staðfest að þessi nýtingarstefna sé í samræmi við viðmið um ábyrgar veiðar, sjálfbærni stofnsins og varúðarsjónarmið.

Ákvörðun um heildarafla á vertíð hefur síðustu tvær vertíðar grundvallast á framangreindri nýtingarstefnu. Með þessari nýtingarstefnu er einnig staðfest sú samstaða strandríkjanna, sem hafði verið á milli þeirra frá árinu 2015, að stunda ekki ósjálfbærar sumarveiðar. Þessi samstaða þýðir að nær engin loðna er lengur veidd í fiskveiðilögsögu annarra ríkja en Íslands. Hið nýja samkomulag gerir ekki ráð fyrir öðrum breytingum á fyrirkomulagi kvótaúthlutunar. Íslandi er því t.d. áfram heimilt, komi í ljós að hlutur Grænlands eða Noregs veiðist ekki að fullu, að veiða það magn sem óveitt er, en Ísland þarf að greiða bætur vegna slíkra veiða ef grænlensk og norsk skip ná ekki að veiða sína hlutdeild vegna síðbúinnar ákvörðunar um leyfilegan hámarksafla. Í nýju rammasamkomulagi er bótaskylda þó miðuð við að ákvörðun um heildarafla sé tekin 5. febrúar eða síðar á árinu. Slíkt tímamark var ekki í fyrri samningi.

Nær eingöngu veitt við Ísland

Aðgangur norskra skipa að íslenskri lögsögu er óbreyttur frá fyrri samningi, sem kvað á um að norsk skip hefðu einungis heimild til að veiða sína hlutdeild í heildarafla loðnu í fiskveiðilandhelgi Íslands norðan við breiddargráðu 64°30´N. Fjöldi norskra skipa, sem samtímis fá leyfi til að veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands, takmarkast eins og áður við 30 skip.

Grænlenskum skipum er heimilt samkvæmt samkomulaginu að veiða 35.000 lestir sunnan breiddargráðu 64°30´N eftir 15. febrúar 2018. Jafnframt er þremur tilgreindum grænlenskum skipum heimilt að vinna að hámarki 6.500 lestir samtals af afla um borð, meðan skipin eru í fiskveiðilandhelgi Íslands. Aðgangur grænlenskra skipa er þannig nánast óbreyttur, en fyrri samningur heimilaði einungis tveimur grænlenskum skipum að vinna þess 6.500 tonn í staða þriggja samkvæmt nýja rammasamkomulagi.

Í rammasamkomulaginu lýsa samningsaðilar yfir þeim vilja sínum að eiga náið samstarf um frekari rannsóknir á loðnustofninum. Nýja samkomulagið hefur jafnframt að geyma skýrari ákvæði um skýrsluskil og miðlun upplýsinga um afla og framsal aflahlutdeildar en fyrri samningur.