miðvikudagur, 25. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýtt sjókælikerfi stuðlar að hærra afurðaverði

16. ágúst 2011 kl. 15:16

Faxi RE. (Mynd: Þorgeir Baldursson)

Blettótt makrílveiði á Þórsbanka og 20% aflans síld.

Nýtt sjókælikerfi, sem sett var um borð í Faxa RE fyrr í sumar, er búið að sanna gildi sitt og er farið að skila ótvíræðum árangri að mati Magnúsar Róbertssonar, vinnslustjóra HB Granda á Vopnafirði. Kerfið skili sér í jafnara og betra hráefni og hærra afurðaverði.

,,Krapakerfi, eins og það sem var í Faxa, getur virkað mjög vel en með sjókælikerfinu er hægt að halda miklu jafnara hitastigi í lestunum og það skilar sér í jafn betra hráefni. Fiskurinn er stinnari. Tekin eru stutt hol og lítið magn í einu og allt þetta stuðlar að auknum hráefnis- og afurðagæðum,“ segir Magnús í samtali á vef HB Granda.

Faxi hefur verið að veiðum á Þórsbanka í veiðiferðinni sem nú stendur yfir og að sögn Hjalta Einarssonar, sem er skipstjóri í veiðiferðinni, hefur áherslan verið lögð á að veiða makríl en jafnan er töluvert um síld í aflanum.

,,Aflabrögðin hafa verið ágæt. Veiðin er samt töluvert blettótt en ef maður hittir á réttu blettina þá hefur fengist góður afli. Það, sem af er degi, hafa um 20% aflans verið síld í bland við makrílinn,“ segir Hjalti.