sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýtt sjókort af hafinu umhverfis Ísland

7. apríl 2008 kl. 16:46

Út er komið hjá Sjómælingum Íslands, Sjómælingasviði Landhelgisgæslu Íslands, nýtt sjókort yfir hafið umhverfis Ísland. Kortið, sem er í mælikvarðanum 1:1 000 000, heitir Ísland og er númer 21.

Þetta kort leysir af hólmi tvö eldri kort, kort númer 25 Ísland (Austurhluti) og 26 Ísland (Vesturhluti).

Mikill fengur er að nýja kortinu sem gagnast mun bæði sjófarendum og öðrum, þar sem á þessu korti má líta íslensku landhelgina á einu kortblaði, segir í frétt á vef Landhelgisgæslunnar.

Sjómælingar Íslands og breska sjómælingastofnunin, United Kingdom Hydrographic Office, hafa með sér samstarfssamning og því leysir þetta nýja kort einnig af hólmi breskt sjókort, nr. 565, sem gefið var út í London 27. júní 1941.

Einnig er komin út ný útgáfa af korti númer 41, Vestfirðir og kemur það í stað eldri útgáfu frá 1983. Kortið er í mælikvarðanum 1:300 000. Nýjar mælingar búa að baki hlutum kortsins, sérstaklega á Breiðafirði og við Snæfellsnes.